22:19
{mosimage}
(Brenton sallaði niður 17 stigum í DHL-Höllinni)
Brenton Birmingham hefur verið að finna sig vel í liði Grindavíkur í síðustu tveimur leikjum og í kvöld setti hann 17 stig, tók 8 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 5 boltum þegar Grindavík rúllaði yfir KR 94-107 í DHL-Höllinni. Þar með var fyrsti ósigur KR á heimavelli þessa leiktíðina færður til bókar.
,,Þetta eru úrslitin og bæði við í Grindavík og strákarnir í KR vitum að þegar hingað er komið á leiktíðinni er heimavöllurinn ekki svo stórt mál. Þetta snýst um að mæta til leiks og framkvæma sína hluti. Hingað hefur enginn sótt sigur fyrr en við gerðum það í kvöld en svona er úrslitakeppnin og þar getur allt gerst,“ sagði Brenton og sagði ófeiminn að Grindvíkingar hefðu verið á hælunum þegar einvígið hófst.
,,Við bara vorum ekki klárir. Í þessum fyrsta leik höfðum við það kannski á bak við eyrað að það hafði enginn unnið í DHL-Höllinni og því komum við flatir og litlausir í þann leik. Okkur finnst við engu að síður vera betra lið en KR og nú höfum við sýnt að við getum unnið þá. Í öðrum leiknum sýndum við það og nú í þriðja leiknum ákváðum við að leggja öll okkar spil á borðið og sjá hvað kæmi út úr því,“ sagði Brenton og þar með var fyrsti ósigur KR á heimavelli fæddur.
,,Nú verðum við að vera einbeittir og mæta á laugardag með sömu vörnina og í kvöld. Við vitum að KR kemur til með að berjast fyrir lífi sínu á laugardag og það er lykillinn, að leika góða vörn. Síðustu ár hefur Grindavík verið liðið sem vinnur því þeir skora meira en í ár höfum við einbeitt okkur meira að vörninni. Við höfum ekki áhyggjur af sókninni því við höfum marga leikmenn sem geta skorað og ef þess þarf með má Nick skora öll stigin, svo framarlega að sigurinn sé okkar megin,“ sagði Brenton kátur og bætti við: ,,Nick á DHL-Höllina“!
,,Einbeitingin liggur núna í vörninni okkar og það hefur verið breytingin sem við höfum unnið að í vetur og vörnin mun vinna titilinn,“ sagði Brenton sem á von á miklum slag á laugardag.
,,Þetta verður harður leikur á laugardag, Jón, Jakob og Helgi mæta með sína bestu frammistöðu ásamt Jason og þeir munu gera okkur lífið virkilega leitt en þetta er spurning um að við höldum okkar ákefð og náum að svara öllu því sem þeir kunna að kasta í okkar átt,“ sagði Brenton sem hefur stigið vel upp í liði Grindavíkur í síðustu tveimur leikjum.



