21:38
{mosimage}
(Brenton Birmingham sýndi góða takta í Röstinni)
Grindvíkingar hafa jafnað einvígið gegn KR í úrslitum Iceland Express deildarinnar með 100-88 sigri á KR í Röstinni í kvöld. Leikurinn var harður og líflegur frá upphafi til enda en nú voru það Grindvíkingar sem voru tilbúnir að berjast, ólíkt því sem þeir sýndu af sér í fyrsta leik liðanna þar sem KR hnykklaði þeim út úr flestum sínum aðgerðum. Brenton Birmingham minnti einnig hressilega á sig með 28 stig, 8 fráköst og 6 stoðendingar. Jason Dourisseau var atkvæðamestur í liði KR með 22 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar. Þriðji leikur liðanna fer fram í DHL-Höllinni á fimmtudag kl. 19:15.
Gestirnir úr Vesturbænum tóku forystuna snemma leiks með tveimur þriggja stiga körfum frá Helga Magnússyni og snögglega var staðan orðin 4-11 KR í vil. Vörn heimamanna í Grindavík var áköf en hún lak nokkuð hressilega í upphafi leiks en eftir því sem líða tók á upphafsleikhlutanna tókst heimamönnum að herða róðurinn undir styrkri stjórn Brentons Birmingham. Þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta stal Brenton boltanum, brunaði upp völlinn og minnti hressilega á sig með magnaðri troðslu. Við þessi tilþrif voru Grindvíkingar komnir yfir 22-21 en Brenton var hvergi nærri hættur heldur átti hann lokaorðið fyrir Grindavík í fyrsta leikhluta þegar hann smellti niður flautuþrist og Grindvíkingar leiddu 25-21 að loknum fyrsta leikhluta.
Það mun seint þurfa að segja Guðlaugi Eyjólfssyni að skjóta á körfuna en hann setti þrist fyrir Grindavík í sinni fyrstu snertingu í leiknum og kom gulum í 28-23 en KR-ingar jöfnuðu metin í 28-28 með þriggja stiga körfu frá kappanum sem KR-ingar kalla kónginn, betur þekktur sem Jón Arnór Stefánsson.
Þorleifur Ólafsson var að berjast hrikalega vel í liði Grindavíkur í kvöld og gulir tóku frumkvæðið og leiddu í hálfleik 48-43. Brenton Birmingham var með 12 stig hjá Grindavík í hálfleik en Helgi Magnússon var með 11 í liði KR.
Jakob Örn Sigurðarson komst í fyrsta sinn á blað í leiknum fyrir KR er hann minnkaði muninn í 50-45 með körfu í teignum og Helgi Magnússon minnkaði muninn í 50-48 með þriggja stiga körfu. Grindvíkingar voru þó ákveðnari og komust í 57-48 með þriggja stiga körfu frá Helga Jónasi Guðfinnssyni en Jason Dourisseau fór þá að gera heimamönnum lífið leitt og fann oft auðveldar leiðir upp að körfunni. Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta fékk Fannar Ólafsson sína fjórðu villu í liði KR og hélt fyrir vikið á tréverkið.
{mosimage}
(Jón Arnór gaf 12 stoðsendingar í kvöld)
Guðlaugur Eyjólfsson kom Grindavík 10 stigum yfir í þriðja leikhluta með þrist úr horninu um leið og skotklukkan rann út og staðan 65-55 fyrir Grindavík sem voru mun líflegri á þessum kafla. KR-ingar skiptu á lokamínútum þriðja leikhluta yfir í svæðisvörn en hún hafði ekki tilætluð áhrif þar sem heimamönnum tókst ágætlega að leysa vörnina. Þegar um 20 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta fengu KR-ingar smá von þegar Jason Dourisseau stal boltanum af Arnari Frey Jónssyni en Arnar braut síðan á honum og uppskar óíþróttamannslega villu. Jason tók sig til og setti bæði vítin sem telst í dag til nokkurra afreka þar sem honum hefur ekki liðið vel á vítalínunin. Jason átti síðan lokaorðið með flautukörfu í teignum eftir innkast KR og staðan 67-63 fyrir Grindavík fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Skelfileg mistök í herbúðum Grindavíkur á lokaspretti þriðja leikhluta sem KR-ingar nýttu sér vel. Til að bæta gráu á svart fyrir Grindvíkinga fór Helgi Jónas Guðfinnsson af velli í þriðja leikhluta og lék ekki meira með í leiknum.
Brynjar Þór Björnsson viðhélt góðum lokaspretti KR í þriðja leikhluta með þristi í upphafi þess fjórða og staðan orðin 67-66. KR-ingar héldu áfram í svæðisvörninni sem var nú mun beittari en í þriðja leikhluta. Um það leyti sem KR var að vinna sig inn í leikinn tóku heimamenn á rás og breyttu stöðunni í 73-66 með þriggja stiga körfu frá Brenton Birmingham. KR-ingar tóku leikhlé í kjölfarið og réðu ráðum sínum.
Páll Kristinsson fékk sína fimmtu villu í liði Grindavíkur þegar 6 mínútur voru til leiksloka og var hann ekki allskostar sáttur við þann dóminn. Grindvíkingar létu það lítið á sig fá að Páll færi af velli heldur hertu þeir róðurinn og leiddu 80-71 þegar þrjár og hálf mínúta voru til leiksloka. Skömmu síðar minnti Páll Axel Vilbergsson á sig með þriggja stiga körfu og kom Grindavík í 86-74 og ætlaði allt vitlaust að verða í Röstinni en Paxel eins og hann er gjarnan nefndur hefur ekki átt sjö dagana sæla í úrslitakeppninni sökum meiðsla.
Brenton Birmingham gerði svo út um leikinn þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka og kom Grindaví kí 89-78 með þriggja stiga körfu. Undir lokin var mönnum orðið ansi heitt í hamsi og minnstu munaði að syði upp úr en svo fór ekki og Grindvíkingar lönduðu sigri, 100-88.
Brenton Birmingham var stigahæstur hjá Grindavík með 28 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar en þeir Nick Bradford og Þorleifur Ólafsson áttu einnig fínan dag í gulu. Nick var með 14 stig og 5 fráköst en Þorleifur gerði líka 14 stig en tók auk þess 11 fráköst og var með 4 stoðsendingar.
Jason Dourisseau var með 22 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar hjá KR en næstur honum var Helgi Magnússon með 21 stig og 10 fráköst. Jón Arnór Stefánsson gerði 16 stig, gaf 12 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Jakob Örn sem lét lítið fyrir sér fara í fyrri hálfleik tók fína rispu í þeim síðari og lauk leik með 11 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar.
Liðin mætast því í sínum þriðja leik á fimmtudagskvöld en sá leikur fer fram í DHL-Höllinni í Vesturbænum kl. 19:15.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



