spot_img
HomeFréttirBrenton í Hall of Fame hjá Manhattan College

Brenton í Hall of Fame hjá Manhattan College

 
Um helgina verður Brenton Joe Birmingham tekinn inn í Hall of Fame í gamla skólanum sínum Manhattan College. Fleirihundruð manns eru tilnefndir í Hall of Fame ár hvert hjá Manhattan College sem er einkaskóli þar sem Brenton lék í tvö ár og var fyrirliði liðsins á síðara árinu. Karfan.is ræddi stuttlega við Brenton um málið sem heldur utan til New York á fimmtudag til að vera viðstaddur athöfnina.
,,Ég verð s.s. tekinn inn í ,,athletic Hall of Fame” í skólanum og þú verður ekki gjaldgengur í þetta fyrr en a.m.k. 10 ár eru liðin frá tíma þínum í skólanum,” sagði Brenton sem varð mjög undrandi á þessum heiðri. ,,Ég bjóst ekki við þessu,” sagði Brenton en í hvert skipti sem þessi afhending fer fram í Manhattan College eru 8 íþróttamenn úr mismunandi íþróttagreinum teknir inn í Hall of Fame hjá skólanum.
 
,,Þetta er lítill einkaskóli og þar var ég á skólastyrk,” sagði Brenton en var ekki lengi að svara hvort þetta myndi kveikja í honum og menn hérlendis fengju í kjölfarið að sjá hann í úrvalsdeildinni. ,,Nei nei, ég fer ekkert í Iceland Express deildina,” sagði Brenton léttur á manninn en hann var byrjunarliðsmaður bæði árin í skólanum sem nú tekur hann í heiðursmeðlimatölu í sínum ranni.
 
,,Síðasta árið var ég fyrirliði og spilaði reyndar stórt hlutverk í liðinu bæði árin mín í skólanum, það verður gaman að hitta þarna gamla skólafélaga, liðsfélaga og fólk frá þessum tíma eins og t.d. starfsfólk skólans,” sagði Brenton en aðspurður hvort hann ætlaði að koma til Ameríku færandi hendi með ösku úr Eyjafjallajökli sagði hann: ,,Nei, það geri ég ekki, ég tek Omega 3 með mér, það er voðalega vinsælt,” sagði Brenton, verðandi heiðursmeðlimur í sínum gamla skóla.
 
Fréttir
- Auglýsing -