spot_img
HomeFréttirBreidd KR vó þungt í lokin

Breidd KR vó þungt í lokin

Þór úr Þorlákshöfn má enn bíða eftir sínum fyrsta deildarsigri í DHL Höllinni en liðsmenn Benedikts Guðmundssonar lutu þar í lægra haldi í kvöld 88-83 gegn KR. Röndóttir heimamenn voru sterkir á lokasprettinum og ljóst að gestirnir söknuðu sárlega Grétars Inga Erlendssonar og Emils Karels Einarssonar sem eru frá vegna meiðsla. Að sama skapi fengu KR-ingar veglegt framlag frá flestum sínum liðsmönnum og skipti það sköpum þegar í harðbakka sló. Vítin vildu ekki niður hjá Þór á ögurstundu og reyndist það þeim dýrkeypt þetta sinnið.
 
Þór er nú í 3. sæti deildarinnar með 22 stig en hefðu getað blandað sér inn á toppinn með Snæfell og Grindavík með sigri í kvöld. KR færði sig uppfyrir Stjörnuna og er nú í 5. sæti með 18 stig en hafa betur innbyrðis gegn Garðbæingum í 6. sæti einnig með 18 stig.
 
Kristófer Acox bauð fólk velkomið í DHL Höllina með því að troða með látum yfir David Bernard Jackson, óskabyrjun heimamanna og KR-ingum í stúkunni leiddust ekki þessi tilþrif. Kristófer var kominn í byrjunarlið KR í kvöld í stað Finns Magnússonar. Gestirnir úr Þorlákshöfn létu ekki háloftatilþrif Kristófers á sig fá og breyttu stöðunni í 9-15 þar sem Darrell Flake var m.a. með tvo stolna bolta í röð og einn maraþonvals þar sem hann reif í sig frákast, dansaði upp völlinn og lokaði stigunum tveimur með öruggu sniðskoti, díselkagginn í urrandi formi!
 
KR-ingar svöruðu svo með 9-0 áhlaupi þar sem Brynjar Þór kom með sterkan þrist en staðan var þó jöfn 23-23 að loknum fyrsta leikhluta og ljóst að hasar væri í vændum.
 
Fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta voru fremur óreiðukenndar, Flake hélt Þór við efnið og gerði 6 af 10 fyrstu stigum gestanna í leikhlutanum en KR var skrefinu á undan. Helgi þjálfari Magnússon átti góðar rispur og kom KR í 40-33 og KR virtist ætla að loka leikhlutanum með látum en þá tók Benjamin Curtis Smith við sér í liði Þórs. Gestirnir tóku 4-10 lokasprett þar sem Smith var beittur og staðan 44-43 í hálfleik fyrir KR.
 
Aðeins fjórir leikmenn hjá Þór höfðu skorað í fyrri hálfleik, Benjamin Curtis Smith var þeirra stigahæstur með 15 stig og Flake næstur með 14 stig. Hjá KR voru þrír jafnir með 9 stig í leikhléi en það voru þeir Brynjar Þór Björnsson, Helgi Magnússon og Brandon Richardson.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik
 
KR: Tveggja 53,6% – þriggja 28,6% og víti 66,7%
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 50% – þriggja 22,2% og víti 90%
 
David Bernard Jackson fékk sína fjórðu villu í upphafi síðari hálfleik hjá Þór og fór fremur varlega eftir það en hékk þó inni það sem eftir liðfi leiks án þess að fá sína fimmtu villu.
 
KR leituðu vel að Helga Magnússyni sem sótti hart á þá Darra Hilmarsson og Guðmund Jónsson með fínum árangri. Liðin skiptust á forystunni en KR komst í 58-55 eftir glæsilegt samspil hjá Helga og Kristófer. Undir lok þriðja leikhluta fékk Darrell Flake dæmda á sig óíþróttamannslega villu og allt benti til að KR ætlaði að hlaupa með forystuna inn í fjórða leikhluta. Annað kom á daginn þar sem heimamenn voru í stakasta basli með hinn eitursnögga Benjamin Curtis Smith og kom hann Þór í 65-64 með stökkskoti í KR teignum þegar um tvær sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Þór fór því með meðbyrinn inn í fjórða leikhluta.
 
Brynjar Þór Björnsson opnaði fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu og kom KR í 68-66. Þórsurum gekk illa að skora í upphafi fjórða en það gerði þó Benjamin Curtis Smith eftir tæpa tvær og hálfa mínútu þegar hann gerði þrist og kom Þór í 68-69. Þannig var fjórði leikhluti, æsispennandi þar sem liðin skiptust á forystunni.
 
KR varð fyrir blóðtöku þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum, þá lendir Kristófer Acox illa eftir skottilraun og spilaði ekki meira með en hann kvaddi leikinn með 16 stig, 6 fráköst og 2 varin skot og var á meðal bestu manna KR í kvöld.
 
Brynjar Þór kom með annan rándýran þrist þegar hann kom KR í 79-75 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir og McClellan var svo aftur á ferðinni fyrir KR utan við þriggja stiga línuna og breytti stöðunni í 84-80. Næstu tvær sóknir hjá Þór enduðu á vítalínunni þar sem Jackson og Smith misnotuðu samtals fjögur vítaskot sem hefðu verið vel til þess fallin að jafna leikinn. Smith náði þó að minnka muninn í 84-82 en nær komust þeir ekki. Heimamenn í KR gerðu vel að klára leikinn og fögnuðu vel í leikslok þar sem þeir bundu enda á þriggja leikja taphrinu sína í deildinni.
 
Of fáir voru að leggja lóð á vogarskálarnar hjá Þór í kvöld á meðan KR nýtti vel hópinn sinn og fimm leikmenn gerðu 12 stig eða meira í leiknum. Brynjar Þór Björnsson og Helgi Magnússon voru báðir með 19 stig og Kristófer Acox bætti við 16. Hjá Þór var Benjamin Curtis Smith með 31 stig og Darrell Flake sýndi oft gamalkunna takta með 25 stig og 11 fráköst.
 
Bæði lið eru nú komin í hlé þar sem Poweradebikarúrslitin fara fram í Laugardalshöll næsta laugardag. KR mætir Njarðvík þann 21. febrúar næstkomandi en Þór Þorlákshöfn leikur gegn KFÍ.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -