spot_img
HomeFréttirBreidd KR of mikil fyrir ÍR-inga (Umfjöllun)

Breidd KR of mikil fyrir ÍR-inga (Umfjöllun)

21:21
{mosimage}

(Jason Dourisseau gerði 26 stig fyrir KR í kvöld)

KR hóf Íslandsmótið í kvöld á öruggum 94-79 sigri í Reykjavíkurslagnum gegn ÍR. Leikurinn fór fram í DHL-Höllinni í Vesturbænum þar sem gestirnir úr Breiðholti héldu lengi vel í heimamenn en í síðari hálfleik reyndust KR-ingar númeri of stórir fyrir ÍR. Jason Dourisseau gerði 26 stig fyrir KR í kvöld og átti vafalítið tilþrif leiksins þegar hann tróð með tilþrifum yfir Ómar Sævarsson í liði ÍR. Jakob Örn Sigurðarson brenndi vart af skoti og valdi þau af kostgæfni og setti niður 24 stig fyrir KR. Hjá ÍR voru þeir Sveinbjörn Claessen og Þorsteinn Húnfjörð báðir með 18 stig.

Hreggviður Magnússon var í ÍR-liðinu í kvöld en hóf leikinn á tréverkinu. Hann lét strax vel til sín taka þegar hann kom inn á völlinn. Lengi vel virtust KR-ingar ætla að stinga af með grimmri pressuvörn og þröngvuðu ÍR til að gera mikið af mistökum. Gestirnir voru þó ekki af baki dottnir og héldu vel í við KR uns heimamenn tóku 11-0 áhlaup undir lok fyrsta leikhluta og staðan 31-19 að honum loknum.

ÍR skipti yfir í 2-3 svæðisvörn í öðrum leikhluta og virtist það ganga ágætlega því heimamenn voru ekki að finna taktinn í langskotunum á þessum kafla. Sveinbjörn Claessen fór fyrir sínum mönnum í ÍR en það reyndist honum dýrt að vera of bráður í vörninni því um miðjan leikhlutann fékk hann sína þriðju villu. Gestirnir sýndu mjög góða baráttu en heimamenn voru ávallt við stjórnartaumana og leiddu 52-40 í háflleik.

Það var aldrei spurning í síðari hálfleik hvort liðið færi með sigur af hólmi og sigldu KR-ingar hægt og bítandi fram úr ÍR. Jón Arnór Stefánsson gerði aðeins eitt stig í liði KR í kvöld en það kom að lítilli sök þar sem heimamenn léku vel saman og allir þeir sem komu af bekknum voru að láta vel til sín taka. Alls 11 leikmenn KR komust á blað og slíkt framlag reyndist ÍR um of sem var að keyra á færri mönnum.

Lokatölur leiksins voru eins og áður segir 94-79 KR í vil en ÍR barðist vel allan leikinn. Gestirnir gerðu einfaldlega of mörg mistök á móti sterkri pressuvörn KR og þau reyndust þeim dýrkeypt í kvöld. Ólafur Aron Ingvason kom inn á hjá ÍR í síðari hálfleik og sýndi fína takta og voru margir í DHL-Höllinni sem furðuðu sig á því hvers vegna þessi leikmaður hefði ekki komið fyrr inn í leiknum. Eiríkur Önundarson var augljóslega orðinn þreyttur en vörn KR þjarmaði vel að honum í kvöld.

KR er gríðarlega vel skipað lið og vart veikan blett að finna á liðinu. Röndóttir voru fremur óþolinmóðir í dag og svo virtist sem þeim fyndist að hér væri skyldusigur á ferðinni. ÍR sýndi þeim að svo væri ekki og ljóst að það er hvergi pláss fyrir vanmat í deildinni þetta árið. Heimamenn hristu svo gesti sína af sér nokkuð örugglega og var gaman að sjá hversu einbeittir og vel stemmdir menn komu af bekknum.

Tölfræði leiksins
http://www.kki.is/leikvarp_tolfraedi.asp?Leikur=1500002941_1_6

[email protected]


{mosimage}
(Eiríkur Önundarson fékk sjaldan frið í kvöld og þannig verður veturinn hjá íslenskum bakvörðum í leikjunum gegn KR!)

Fréttir
- Auglýsing -