spot_img
HomeFréttirBreiðablik sigraði KFÍ í spennuleik

Breiðablik sigraði KFÍ í spennuleik

7:27

{mosimage}

Breiðablik hrósaði sigri í kvöld gegn KFÍ á heimavelli sínum, 86-83, í hreint ótrúlegum körfuboltaleik þar sem úrslitin réðust á ögurstundu. Sigurinn var sá fimmti í sex leikjum og færir Blika nær 2. sætinu í deildinni og þar með heimavallarréttindum í úrslitakeppninni.

Blikar höfðu tögl og hagldir í byrjun og virtust koma vel stemmdir til leiks. Þeir náðu góðu forskoti, 16-5, og höfðu leikinn í sínum höndum. Eftir 1. leikhluta var staðan 29-13, heimaliðinu í vil. í upphafi 2. hluta sýndu Blikar enga kurteisi og náðu 22 stiga forskoti, 44-22, og virtust ætla að kafsigla vestfirsku víkingana. Renold Marcelline, Kaninn í liði Blika, fór mikinn á þessum tíma og hreif liðið með sér. En þá var eins og eitthvað hafi látið undan í undirmeðvitund liðsins og menn jafnvel búnir að bóka sigur fyrirfram. Ísfirðingar gengu á lagið og náðu góðri rispu, 5-17, og staðan 49-39 í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks héldu gestirnir áfram að berja barátuanda sér á brjóst og minnkuðu enn muninn í 49-43 og leikurinn að galopnast. Blikar vöknuðu til lífsins með Sævar í broddi fylkingar og svöruðu með 9-2 áhlaupi og breyttu stöðunni í 58-45. Ísfirðingar héldu áfram seiglu sinni og brúuðu bilið enn frekar og kom þar einkum til óagaður leikur heimamanna. Staðan 65-58 þegar flautað var inn í síðasta fjórðung.

Vestfirsku víkingarnir komu ákveðnir inn í fjórðunginn og náðu muninum niður í 69-64. Tók þá Bojan þjálfari Blika leikhlé. Ekki virkaði það alveg sem skyldi því KFÍ pressaði mjög agresíft og náði loks að jafna metinn, 71-71. Og þeir gerðu gott betur en það. Þeir náðu fimm stiga forystu, 71-77, þegar tæpar 2 mínútur lifðu leiks og stemmningin öll vestfirsk á þeim iðjagræna. Jónas, leikmaður Blika, var ekki dottinn af baki og setti laglega körfu, 73-77. KFí svaraði en Sævar tók þá eitt af sínum 17 þriggja stiga skotum – og negldi því ofan í, 76-79. Kaninn í liði KFÍ setti 2 víti af fjórum niður og breytti stöðunni í 76-81. Útlitið dökkt hjá Blikum en Jónas skoraði, 78-81. Enn settu Ísfirðingar bara annað skotið niður af línunni, 78-82 og Blikar skoruðu í kjölfarið. 80-82. Nú voru aðeins 25 sekúndur eftir og allt á suðupunkti. Blikar jöfnuðu svo með fulltingi Jónasar 82-82 en bruru svo klaufalega af sér. KFÍ skoraði enn bara úr öðru vítaskoti sínu, 82-83. Blikar náðu svo að stela boltanum eftir nokkurn darraðardans og Tóti litli skoraði 84-83 og svo Óli Hrafn í blálokin og úrslitin því 86-83.

Blikar léku vel framan af leik en svo virtust þeir missa einbeitinguna. Fengu á sig skrýtnar tæknivillur á tíðum en sigur er jú alltaf sigur og leikmennirnir sýndu styrk og mikinn sigurvilja undir lokin.

Tölfræðin

 

www.breidablik.is

 

Mynd: www.basketballbeyondborders.com

Fréttir
- Auglýsing -