8:40
{mosimage}
Iceland Express lið Breiðabliks og Grindavikur halda til Næstved í Danmörku í dag. Bæði liðin munu leika fjóra leiki gegn dönskum úrvalsdeildarliðum í ferðinni.
Upphaflega komst þessi ferð á fyrir tilstilli Thomas Foldbjerg fyrrum þjálfara Breiðabliks en hann starfar hjá Næstved. Foldbjerg fór í það ásamt Einari Árna þjálfara Breiðabliks og Geof Kotila nýjum þjálfara Næstved, og fyrrum þjálfara Snæfells að setja upp ferð fyrir Breiðabliksliðið og síðar í ferlinu bættust svo Grindvíkingar við þannig að það eru tæplega 40 manns frá þessum tveimur félögum sem lögðu í hann með Iceland Express í morgun.
Bæði lið leika strax í kvöld og er leikið einnig fimmtudags- og föstudagskvöld en á laugardag spila Blikar sinn síðasta leik í Næstved meðan Grindvíkingar færa sig yfir til Kaupmannahafnar og spila síðasta leikinn sinn þar gegn SISU en þar leikur einmitt Lárus Jónsson fyrrum Hamarsmaður.
Dagskrá Blika í Danmörku:
Miðvikudagur 18:15 leikið gegn Amager
Fimmtudagur 18:15 leikið gegn Svendborg
Föstudagur 20:15 leikið gegn Team FOG Næstved
Laugardagur 10:30 leikið gegn Roskilde
Dagskrá Grindvíkinga í Danmörku:
Miðvikudagur 20:15 leikið gegn Team FOG Næstved
Fimmtudagur 20:15 leikið gegn Roskilde
Föstudagur 18:15 leikið gegn Svendborg
Laugardagur leikið gegn SISU í Kaupmannahöfn
Liðin halda svo heim á leið sunnudaginn 28. september og skella sér beint í Powerade bikarinn, en Breiðablik heimsækir Njarðvík í fyrstu umferð á mánudagskvöldinu 29. september og Grindvíkingar kíkja eflaust á þann leik þar sem þeir mæta svo sigurvegurum úr þeim leik á miðvikudeginum 1. október.
Af þessum dönsku liðum er það að segja að Roskilde eru nýliðar í deildinni, SISU voru í 8. sæti í fyrra en þar leikur auk Lárusar Jónssonar, Jes Hansen fyrrum leikmaður UMFN. Næstved voru í 7. sæti í fyrra en þar eru menn að stefna hátt á næstu árum og ætla sér að koma Næstved á meðal fremstu liða í Danmörku. Amager varð svo í þriðja sæti í fyrra en þjálfari liðsins er Jesper Sörensen sem lék með KR í kringum aldamótin. Einnig er þar fremstur meðal jafningja Peter Johansen sem lék stórt hlutverk í danska landsliðinu á dögunum (miðherji #15). Svendborg var svo í úrslitaseríunni gegn Bakken sl vor en þeir eru silfurhafar deildarinnar sl tvö ár og munu leika í Evrópukeppni á komandi vetri líkt og Bakken Bears. Ivan Hoger er eitt af stærstu nöfnum þeirra en hann er 225 cm miðherji frá Tékklandi, og þjálfari þeirra er Craig Pedersen aðstoðarþjálfari danska landsliðsins.
Mynd: [email protected]