Ágúst Björgvinsson tók til þess ráðs að taka leikhlé þegar rúmlega ein og hálf mínúta var eftir af leiknum, 70-68, en Hamarsmenn höfðu ekki nýtt seinustu sóknir sem skyldi og því líklega að Ágúst hafi þar verið að skerpa sóknarleik sinna manna. Hamarsmenn misnotuðu þrjár sóknir á þessari einu og hálfu mínútu og voru komnir fjórum stigum undir þegar 20 sekúndur voru eftir þegar Marvin Valdimarsson setti niður risastóra þriggja stiga körfu. Leikurinn færðist á vítalínuna á lokasekúndunum og Andre Dabney kom Hamar yfir af línunni þegar 10 sekúndur voru eftir, 72-73. Skjótt skipaðist þó veður í lofti því þegar þrjár sekúndur voru eftir hafði Jerome Schmitd komið blikum aftur yfir, 74-73 og Hamar tók leikhlé. Seinasta sókn Hamarsmanna fór í súginn þegar Andre Dabney keyrði inní Jeremy Caldwell og uppskar ruðning fyrir vikið. Þetta líkaði gestunum vægast sagt illa og fengu stólar og fleira lauslegt að fljúga á varamannabekk Hamars. Heimasigur var þrátt fyrir það staðreynd, 74-73.
Breiðablik heldur í vonina eftir æsispennandi sigur á Hamri
Breiðablik hafði betur gegn Hamri í Kópavoginum í kvöld 74-73 eftir æsispennandi og dramatískar lokamínútur í Iceland Express deild karla. Breiðablik náði forskotinu þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum, Hamar fékk því eina lokasókn þar sem Andre Dabney tókst að koma boltanum ofaní körfuna með eina sekúndu eftir á klukkunni en karfan var dæmd ógild og ruðningur dæmdur á Dabney. Breiðablik hélt boltanum seinustu sekúnduna og unnu því eins stigs sigur.
Jafnt var á öllum tölum til að byrja með eða allt þar til um miðbik fyrsta leikhluta. Þá virtist svæðisvörn gestanna detta í gang og þeir skoruðu 7 stig gegn 0 stigum Breiðabliks, 6-13. Heimamenn virtust vera í bullandi vandræðum með að finna svör á svæðisvörn Hamars og voru svo óheppnir þegar þeir fundu loks leið í gegn þá fór boltinn allt annað en ofaní. Heimamenn svöruðu hins vegar fyrir sig þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta hafði Breiðablik jafnað, 13-13, með nokkrum vel nýttum hraðaupphlaupum. Ágúst Björgvinsson tók þá leikhlé. Þegar fyrsta leikhluta lauk hafði Hamar 3 stiga forskot, 15-18.
Breiðablik skoraði fyrstu 4 stig annars leikhluta og höfðu þá náð forustunni, 19-18. Liðin skiptust á að leiða leikinn næstu mínúturnar þar til leikhlutinn var um það bil hálfnaður þegar Breiðablik hafði náð 4 stiga forskoti, 28-24. Jeremy Caldwell var drjúgur fyrir heimamenn í fráköstunum en hann hirti hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og munaði um minna fyrir Blika sem voru annars oft í vandræðum með að leysa svæðisvörn Hamars. Þessu forskoti héldu blikar næstu mínúturnar þar til Ágúst tók leikhlé fyrir Hamar þegar rúmlega ein og hálf mínúta var til hálfleiks, 33-28. Heimamenn kláruðu leikhlutan með stæl því á seinustu 15 sekúndum leiksins tókst þeim að skora 5 seinustu stig fyrri hálfleiks og höfðu því 8 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 38-30.
Heimamenn byrjuð þriðja leikhluta af krafti og höfðu náð 13 stiga forskoti þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar, 47-34. Marvin Valdimarsson virtist vera sá eini sem fann glufur á vörn heimamanna í liði Hamars í byrjun þriðja leikhluta. Hamar gekk illa að minnka þetta forskot þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir en Breiðablik refsaði oft fljótt með auðveldum þriggja stiga skotum. Hamar virtist hins vegar ná að loka á það þegar leið á leikhlutan og þegar rúmlega tvær og hálf mínúta var eftir var munurinn kominn niður í 7 stig, 54-47. Viðar Örn Hafsteinsson datt allrhessilega í gang og setti niður hverja þriggja stiga körfuna á fætur annari og hafði skorað 9 stig á örfáum mínútum og var munurinn kominn niður í 4 stig þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum. Breiðablik átti hins vegar seinustu stig leikhlutans og hafði því 6 stiga forskot, 59-53, þegar einum leikhluta var ólokið.
Hamarsmenn mættu mjög ákveðnir inní fjórða leikhluta og spiluðu hörku varnarleik sem skilaði sér fljótt því þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn kominn niður í 2 stig og leikurinn galopinn fyrir lokamínúturnar. Þegar leihklutinn var hálfnaður hafði Hamar svo náð forskotinu aftur í fyrsta skiptið síðan á upphafsmínútum annars leikhluta, 61-64. Leikurinn var hnífjafn á lokamínútunum og vægast sagt spennandi. Bæði lið þurftu að hafa gríðarlega fyrir hverju stigi enda var fagnað samkvæmt því. Þegar tvær mínútur voru eftir höfðu blikar aftur náð frumkvæðinu og höfðu yfir 70-67.
Stigahæstur í liði Breiðabliks í kvöld var Jonathan Schmidt með 22 stig og 7 stoðsendingar en hjá Hamri voru þeir Marvin Valdimarsson og Andre Dabney báðir með 25 stig en Marvin var auk þess með 9 fráköst.
Umfjöllun: Gísli Ólafsson



