22:45
{mosimage}
(Hjalti Vilhjálmsson er kominn aftur á ról með Breiðablik eftir meiðsli)
Breiðablik tók á móti Þór Ak. í Smáranum fyrr í kvöld í Iceland Express deild karla. Gestirnir frá Akureyri byrjuðu betur og höfðu frumkvæðið nánast allan fyrri hálfleik. Heimamenn komust þó yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar um það bil fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Það var hins vegar hnífjafnt, 42-42 þegar flautað var til hálfleiks. Breiðablik voru hins vegar sterkari aðilinn í seinni hálfleik og náðu tvisvar í leiknum 8-9 stiga forskoti sem var stærsta forskot leiksins. Þessi munur virtist of mikill fyrir gestina til að brjóta niður og þeir eltu allan svo gott sem allan fjórða leikhluta. Heimamenn höfðu á endanum nokkuð öruggan 6 stiga sigur, 87-81. Stigahæstur í liði heimamanna var Nemanja Sovic með 18 stig og 8 fráköst. Næstir voru Þorsteinn Gunnlaugsson með 17 stig og 9 fráköst og Kristján Rúnar Sigurðsson með 16 stig. Hjá Þór var nýr leikmaður þeirra Konrad Tota stigahæstur með 26 stig en næstir á eftir honum voru Guðmundur Jónsson með 18 stig og 4 stoðsendingar og Óðinn Ásgeirsson með 12 stig og 11 fráköst.
Eftir auðvelda körfu í upphafi hjá heimamönnum mættu Þórsarar af fullum krafti. Þeir pressuðu Rúnar og Daníel allan völlinn en þeir voru í mestla bastli með að koma boltanum upp völlinn. Þegar tvær mínútur voru liðnar af leiknum var staðan orðin 2-8 en gestirnir höfðu þar með skorað 8 stig í röð. Guðmundir Jónsson sýndi stórleik á upphafsmínútunum með gríðarlega öflugum varnarleik og stýrði sóknarleik gestana af miklum krafti. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan 10-16 Þór Ak. í vil. Breiðablik komu hins vegar sterkir til baka og það sást á leik gestana um leið og Guðmundur Jónsson fór útaf, en hann hvíldi nánast allan seinni hluta fyrsta leikhluta eftir að hann fékk sína aðra villu. Þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta var munurinn kominn niður í 5 stig, 16-21. Breiðablik tókst aðeins að rétta sinn hlut fyrir lok fyrsta leikhluta og munaði því aðeins þremur stigum á liðunum þegar flautað var til loka hans, 21-24. Óðinn Ásgeirsson fór mikinn fyrir gestina og skoraði 10 stig í fyrsta leikhluta.
Liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta en þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum tók Hrafn Kristjánsson, þjálfari Þórs, leikhlé en þá var staðan 28-30. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum áttu heimamenn í fyrsta skiptið í leiknum tækifæri til þess að komast yfir og þeim tókst það í þriðju tilraun þegar Nemanja Sovic lagði boltan laglega ofaní eftir mikla óreiðu á vellinum, 37-35. Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leikhlutans og þegar flautað var til hálfleiks var jafnt á öllum tölum, 42-42.
Stigahæstir heimamanna í hálfleik voru Kristján Sigurðsson, Þorsteinn Gunnlaugsson og Nemanja Sovic allir með 9 stig. Hjá Þór var Óðinn Ásgeirsson stigahæstur með 12 stig og 5 fráköst en næstir voru Konrad Tota og Guðmundur Jónsson með 11 stig hvor.
{mosimage}
Gestirnir virtust hálf sofandi í varnarleiknum fyrstu mínúturnar og náði Breiðablik 5 stiga forskoti strax eftir tæpar þrjár mínútur, 49-44. Gestirnir tóku rispur inná milli en virtust ekki geta haldið í við blika í þrijða leikhluta. Þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður tóku gestirnir leikhlé í stöðunni 55-48 sem var stærsta forskot heimamanna fram að því. Þetta leikhlé virtist kveikja all hressilega í gestunum sem skoruðu næstu 5 stig leiksins og voru búnir að minnka muninn niður í eitt stig þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum, 57-56. Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði þriðja leikhluta og þegar honum lauk höfðu heimamenn ennþá eins stigs forskot, 66-65.
Þór Ak. spiluðu svæðisvörn frá fyrstu mínútu í fjórða leikhluta og eftir um það bil tvær mínútur virtust heimamenn vera búnir að finna glufu á henni því á innan við mínútu settu þeir tvær þriggja stiga körfur í röð og breyttu stöðunni úr 68-68 í 74-68. Þennan mun gekk erfiðlega fyrir gestina að brjóta niður og þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum var munurinn ennþá 6 stig, 78-72. Þegar leið á leikinn virtust geimamenn vera að ná stjórn á leiknum, það gekk brösulega hjá gestunum að koma boltanum ofaní körfuna og tíminn var þeim ekki hliðhollur. Þegar rétt rúmlega tvær mínútur voru eftir tóku gestirnir leikhlé en þá stóðu tölur, 81-72. Seinustu tvær mínúturnar hlupu liðin fram og til baka og virtust bæði vera í hálfgerðu óðagoti, heimamenn til að halda fengnum hlut en gestirnir til að ná að skora sem fyrst. Lokamínútan var svo vítaleikur nánast á báða bóga en Blikar fengu ekkert annað en vítalínuna. Leikurinn endaði svo með 6 stiga sigri heimamanna , 87-81.
Umfjöllun : Gísli Ólafsson
Mynd : Snorri Örn Arnaldsson [email protected]



