spot_img
HomeFréttirBreiðablik ennþá taplausir, beittari undir lokin gegn Fjölni

Breiðablik ennþá taplausir, beittari undir lokin gegn Fjölni

Breiðablik og Fjölnir mættust í Smáranum í kvöld í fjórða leik beggja liða í 1. deild karla. Blikar voru taplausir fram til þessa á meðan að Fjölnismenn höfðu unnið tvo af sínum fyrstu þremur leikjum. Nýr erlendur leikmaður Fjölnis, Samuel Prescott Jr., hafði átt mjög flottan fyrsta leik gegn Snæfell og var augljós uppfærsla frá fyrsta Kananum hjá Grafarvogsliðinu. Eftir jafnan og spennandi leik náðu heimamenn góðum lokakafla og unnu leikinn 81-68.

Leikurinn byrjaði frekar hægt og liðin voru ekki að spila með miklum gæðum framan af, sem sást best á slakri skotnýtingu og töpuðum boltum til að byrja með. Blikar höfðu forystu eftir fyrsta leikhluta, 19-14. Fjölnismenn, og þá sérstaklega erlendur leikmaður þeirra, voru miklu betri í öðrum leikhluta og náðu niður muninum með þéttari vörn og góðum hraðaupphlaupum. Prescott Jr. átti góðan sprett fyrir gestina, skoraði 13 stig á 4 mínútum í öðrum leikhluta, og liðin skildu jöfn í hálfleik, 35-35.

Seinni hálfleikurinn hófst nákvæmlega eins og hinn fyrri, Fjölnir byrjaði sterkar og Blikar voru 1-2 mínútur að koma sér í gang. Þegar þeir fóru loks í gang voru þeir þó beittari og náðu að taka smá áhlaup sem olli því að Falur Harðars fann sig tilknúinn að taka leikhlé. Gestirnir úr Grafarvogi náðu aðeins að klóra í bakkann eftir það og leikhlutanum lauk með einungis 4 stiga mun, 61-57. Liðin héldu áfram að skiptast á körfum í lokaleikhlutanum en Fjölnismenn gátu ekki tekið forystuna sama hvað þeir reyndu. Jeremy Smith kláraði að lokum leikinn sannfærandi með eins manns áhlaupi og lokastaðan var því 81-68, Breiðablik í vil.

Þáttaskil

Leikurinn snérist ekki endanlega fyrr en á seinustu þremur mínútum leiksins, en þá náðu Blikar loks að slíta sig frá Fjölni með góðu áhlaupi erlends leikmanns Breiðabliks, Jeremy Smith, en hann skoraði öll seinustu stig síns liðs.

Hetjan

Eins og áður sagði var það Jeremy Smith sem að kláraði leikinn fyrir heimamenn og innsiglaði sigurinn. Í stöðunni 68-65 og þrjár mínútur eftir til leiksloka fór Smith í gírinn og skoraði seinustu 13 stig Breiðabliks. Í fyrri hálfleik var hann nokkuð rólega með aðeins 4 stig, en hann fór aldeilis í gang eftir það og skoraði 25 stig á seinustu 20 mínútum leiksins. Hann lauk leik með 29 stig, 7 fráköst, 5 stoðsendingar og einum stolnum bolta.

Tölfræðin lýgur ekki

Liðin voru mjög jöfn í flestum tölfræðiþáttum en það sem stóð upp úr var að Blikar hittu úr fleiri tveggja stiga skotum (5 talsins) og þristum (einum fleiri). Þetta var allur munurinn, 13 stig. Breiðablik tóku 12 fleiri fráköst líka, en það voru 6 varnarfráköst og 6 sóknarfráköst.

Kjarninn

Breiðablik voru ekki mjög sannfærandi í þessum leik, en náðu með góðri rispu undir lokin að klára leikinn. Fjölnismenn voru ágætir en það er ekki nóg að vera allt í lagi gegn einu toppliði 1. deildarinnar, þeir hefðu þurft að mæta miklu betur í þessa viðureign. Blikar áfram taplausir og Fjölnir hefur ekki enn unnið leik á útivelli.

Næst eiga Blikar leik gegn Hamri í Hveragerði, en til gamans má geta að þjálfari og aðstoðarþjálfari Breiðabliks eru báðir uppaldir Hamarsmenn. Það verður eflaust skrautlegur leikur. Fjölnir á langa ferð fyrir höndum, en þeir mæta næst Vestra á Ísafirði og þeir fá þar annað tækifæri til að vinna sinn fyrsta útivallarleik.

Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Myndasafn eftir Bjarna Antonsson

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

 

 

Fréttir
- Auglýsing -