spot_img
HomeFréttirBrandon Woudstra í viðtali

Brandon Woudstra í viðtali

 Brandon Woudstra er fyrrum leikmaður Njarðvíkur sem hefur átt góðu gengi að fagna eftir veru sína hér á landi. Eftir eitt ár í Njarðvík spilaði hann í Hollensku deildinni og varð stigahæsti leikmaður þar. Þar eftir spilaði kappinn 2 tímabil með margföldum Þýskalands-meisturum Bayer Leverkusen. Nú fyrir þetta tímabil óskuðu lið Ludwigsburg eftir kröftum þessa geysilegu skyttu og sló hann til.  Skemmst frá því að segja er Brandon að gera fína hluti þar á bæ. Kappinn er hæstur í þremur tölfræði þáttum liðsins með 16 stig á leik, 5 fráköst og 4 stoðsendingar á leik.

 

Við spurðum Brandon í vikunni um dvöl sína í Þýskalandi hingað til. “Þýskaland hefur verið mér og konu minni mjög góð bæði lífsgæðislega og körfuboltalega séð. Deildin hér er mjög sterk og mér líkar mjög vel. Konan mín líkar lífið hér gríðarlega vel og það hefur verið stór þáttur í ákvörðun minni á að spila hér áfram.” 

Tvö tímabil með Leverkusen og svo ferðu yfir til Ludwigsburg. Hvers vegna skiptiru um lið ? 

Það eru í raun margar ástæður þess og ákvörðunin var alls ekki auðveld. Við höfðum komið okkur vel fyrir í Leverkusen og líkaði mjög vel við dvölina þar og það fólk sem vann starfið í kringum liðið. En sú staðreynd að Ludwigsburg gat boðið mér tveggja ára samning og einnig var liðið að spila í ULEB-Cup en að spila í Evrópukeppni er eitt sem ég hef ekki haft möguleika á hingað til. Aðstæður í Leverkusen voru einnig að breytast, þeir gátu aðeins boðið mér eins árs samning og lyfja fyrirtækið Bayer hefur ákveðið að styrkja á næstu árum aðeins fótboltalið borgarinnar. Þannig að eins og staðan er í dag hefur liðið ekki náð í nýjan “sponsor” og allskostar óvíst að þeir verði hreinlega með lið á næsta tímabili. Sem er í raun mjög grátlegt því þetta er sögufrægt félag í heimi körfuknattleiks í Þýskalandi og mætti líkja þessu við að Njarðvík myndi allt í einu leggja upp laupanna.  

Njarðvíkingar reyndu að fá þig annað tímabil. Hversu nálægt varstu að skrifa aftur undir hjá þeim grænklæddu ? 

Í raun var ég mjög nálægt því.  Systir mín hafði skrifað undir hjá kvennaliði UMFN og það lá beinast við að ég myndi skrifa undir í kjölfar þess. En að lokum var ég ekki viss hversu lengi ég myndi endast í atvinnumensku og tækifærið að spila í Hollandi áleit ég mikla auglýsingu fyrir mig sem leikmann og það var kannski stærsti ákvörðunar þáttur í því að ég fór til Hollands. Þetta var erfið ákvörðun en þegar litið er tilbaka var hún ekki svo slæm 😉 

Ef þú hefðir á þessum tímapunkti skrifað undir hjá Njarðvík, helduru að þú værir í dag í þeim sporum sem þú ert ? 

Það er erfitt að segja. Ef Njarðvík hefði unnið titil það árið og/eða spilað í Evrópukeppni þá er aldrei að vita. Þess ber að geta að 4 leikmenn frá Keflavik/Njarðvík spila nú í þýsku Bundesligunni.  (AJ Moye, Jeb Ivey, Derrick Allen, Woudstra) 

Hvernig er hinn venjulegi dagur í lífi atvinnumanns í Þýskalandi ?

Dagarnir eru mismunandi eftir dagskrá liðsins þann daginn. En ef ég ætti að lýsa einni viku þá væri það eftirfarandi.

Mánudagur: Skotæfing snemma dags – Kvöld æfing og farið yfir vídeo fyrir ULEB-Cup leik daginn eftir.

Þriðjudagur: Labbað í gengum kerfi snemma dags – ULEB Cup leikur um kvöldið.

Miðvikudagur: Farið í lyftingar um miðbik dagsins

Fimmtudagur: 2 æfingar yfir daginn (um morguninn og kvöldið)

Föstudagur: Æfing og videó fundur um kvöldið. Búið sig undir Bundesliga leik daginn eftir.

Laugardagur: Labbað í gegnum kerfi og video fundur með einstaklingum snemma morguns. Deildarleikur um kvöldið.

Sunnudagur: Ef sigur vinnst á laugardegi er frí annars létt æfing.  

Nýlega spilaðiru í Stjörnuleiknum í Þýskalandi gegn fyrrum UMFN leikmanninum Jeb Ivey, báruð þið saman bækur ykkar um dvöl ykkkar hjá liðinu ? 

Já við hittumst fyrir leikinn aðeins uppá hóteli og við og konur okkar spjölluðumst aðeins saman. Stuttu eftir það spiluðum við í deildarleik við Gottingen (lið Jebs) þar sem Jeb átti fínan leik. (þess má geta að þeir félagar voru stigahæstir sinna liða í þessum leik- Woudstra 20 og Ivey 19 stig – Ludwigsburg vann með 2 stigum) 

Í lokin, myndir þú íhuga að spila aftur fyrir Njarðvík ef tækifærið gæfist ? Ég myndi ekki útiloka það. Tækifæri á að spila á stað sem okkur hjónum leið svo vel væri vissulega möguleiki.

Fréttir
- Auglýsing -