spot_img
HomeFréttirBragi: Stjörnuhjartað og baráttan skilaði þessu

Bragi: Stjörnuhjartað og baráttan skilaði þessu

00:01 

{mosimage}

 

(Liðsmenn Stjörnunnar kátir í leikslok í kvöld, Bragi er í aftari röðinni lengst til hægri)

 

 

Þjálfari Stjörnunnar, Bragi Magnússon, var kátur þegar Karfan.is náði tali af kappanum eftir leik Stjörnunnar og Vals í kvöld þar sem Stjörnumenn tryggðu sér sæti í Iceland Express deildinni á næstu leiktíð. Stjarnan lagði Val í oddaleik í Íþróttahúsi Kennaraháskólans í kvöld og sagði Bragi að liðið hefði farið lengstu leið að þessum áfanga.

 

,,Við kláruðum báða oddaleikina okkar á útivelli og komum sem síðasta liðið inn í þessa úrslitakeppni svo við fórum lengstu leið sem hægt var að fara,” sagði Bragi. ,,Þetta var Stjörnuhjartað og baráttan í strákunum sem færðu okkur sæti í Iceland Express deildinni. Það var ekki búist við neinu frá þessu liði alveg frá upphafi tímabilsins þannig að það má kannski segja að þetta hafi verið smá Öskubuskusigur hjá liðinu.”

 

Bragi vildi meina að það hefði eitthvað smollið saman hjá liðinu eftir fyrsta útisigurinn í undanúrslitunum gegn Breiðablik. ,,Menn föttuðu að þeir gátu þetta alveg og það gerðist eitthvað í hausnum á þeim,” sagði Bragi sem ráðinn var til liðsins þegar skammt var liðið af tímabilinu eftir að Stjarnan hafði látið spilandi þjálfara sinn, Derrick Stevens, víkja úr starfi en undir hans stjórn tapaði liðið öllum leikjum sínum.

 

Ekki er komið á hreint hvort Bragi verði með Stjörnuna í IE deildinni á næstu leiktíð en Bragi mun skoða málin og sagðist hafa áhuga á því að halda áfram með liðið.

 

Mynd: www.vikurfrettir.is – Valur Jónatansson

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -