spot_img
HomeFréttirBragi: Spenntur fyrir þriðjudeginum

Bragi: Spenntur fyrir þriðjudeginum

{mosimage}

(Bragi Magnússon) 

Bragi Magnússon þjálfari Stjörnunnar var sáttur við sigur sinna manna í Hveragerði í kvöld enda dugði nýliðum Stjörnunnar ekkert annað en sigur ef þeir ætluðu sér að eiga möguleika á því að komast í úrslitakeppnina. Tindastóll, Þór Akureyri og Stjarnan eiga nú öll möguleika á því að landa 8. sætinu í deildinni sem er jafnframt síðasta sætið inn í úrslitakeppnina. Stjarnan og Tindastóll mætast í svakalegum leik í Ásgarði á þriðjudag en leikur liðanna er hreinn úrslitaleikur um 8. sætið að því gefnu að Þór tapi á heimavelli gegn Snæfell í síðustu umferðinni. 

,,Það er ennþá von hjá okkur og varðandi leikinn í Hveragerði í kvöld var tvennt gott við hann. Við unnum leikinn og náðum í lokin að rífa okkur upp úr einu mesta volæði sem ég hef séð til okkar í vetur. Þetta var vondur leikur hjá okkur í marga staði og ef við spilum svona eins og við gerðum í kvöld þá eigum við ekkert erindi í úrslitakeppnina en ef við leikum eins og við höfum verið að gera undanfarið þá eigum við full erindi,” sagði Bragi í samtali við Karfan.is en Stjarnan lagði Hamar í Hveragerði 70-82 þar sem þeir Jovan Zdravevski og Jarrett Stephens gerðu báðir 19 stig í liði Stjörnunnar.  

,,Við verðum að setja leikinn á þriðjudag þannig upp að Þór muni tapa gegn Snæfell og við verðum að leika leikinn gegn Tindatól sem úrslitaleik. Ef Þór tapar mun Stjarnan eða Tindastóll fara í úrslitakeppnina,” sagði Bragi en leikurinn á þriðjudag verður vafalítið stærsti leikur Stjörnunnar í sögu félagsins í úrvalsdeild.  

,,Þetta er ekki ósvipað því sem við lentum í í fyrra þar sem við komumst inn í úrslitakeppni 1. deildar með sigri á KFÍ í síðasta deildarleiknum og það virðast svipaðir hlutir að gerast núna,” sagði Bragi og vonar því heitt að Snæfellingum takist að landa sigri gegn Þór á Akureyri næsta þriðjudag.  

,,Ég er mjög spenntur fyrir þriðjudeginum og við settum okkur markmið í upphafi tímabilsis um að fara í úrslitakeppnina og það er gaman að vera í þeirri stöðu að geta náð okkar markmiðum sem við settum okkur í upphafi. Ég er virkilega stoltur af því þegar einn leikur er eftir að við skulum eiga möguleika á því að komast í úrslitakeppnina,” sagði Bragi við Karfan.is  

Smellið hér til að sjá tölfræðina úr leik Hamars og Stjörnunnar í kvöld

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -