Hann var ekki fallegur körfuknattleikurinn sem fór fram í Njarðvík í kvöld. Heimastúlkur höfðu sigur á gestum sínum í Val að lokum 67-48. Njarðvíkur stúlkur er því komnar í 6 sæti deildarinnar á meðan Valsstúlkur verma neðsta sætið.
Fyrri hálfleikur leiksins var afar dapur. Bæði lið hittu illa og mistök hjá leikmönnum sem hreinlega eiga ekki að sjást í efstu deild. Ef einhverju var hægt að hrósa var það varnarleikur liðanna í fyrri hálfleik en að samaskapi var sóknarleikur liðanna svo hugmyndasnauður að erfitt hefði verið að spila lélega vörn.
27-22 var staðan í hálfleik og máttu stúlkur beggja liða eiga von á harðri ræðu frá þjálfara sínum í hállfleik. Í þriðja leikhluta fóru leikmenn örlítið að hressast og hittnin skánaði eilítið hjá báðum liðum. Shantrell Moss erlendi leikmaður Njarðvíkur hafði haft hægt um sig í fyrri hálfleik og ekki eins mikill kraftur í henni og venjulega. Stúlkan var hinsvegar betri í þeim seinni og sýndi á tímum þá elju sem hún býr yfir.
Fyrir síðasta leikhlutan höfðu heimastúlkur 7 stiga forskot 45:38. En það voru heimastúlkur sem voru sprækari á lokasprettinum og skoruðu í síðasta leikhlutanum 22 stig gegn aðeins 10 stigum frá gestunum og þar með var sigurinn í höfn.
Shantrell Moss var stigahæst hjá heimastúlkum með 28 stig en hjá gestunum var það Hrund Jóhannsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir með 11 stig hvor.



