spot_img
HomeFréttirBræðrabylta í Höllinni: Hafa báðir áhyggjur af styrkleikum hvers annars

Bræðrabylta í Höllinni: Hafa báðir áhyggjur af styrkleikum hvers annars

15:30 

{mosimage}

 

 

Bræðurnir Pétur og Jón Arnar Invarssynir mætast með liðin sín ÍR og Hamar/Selfoss í bikarúrslitaleik í karlaflokki á morgun í Lýsingarbikarkeppninni. Þetta er í fyrsta sinn sem bræðurnir mætast sem þjálfarar í bikarúrslitaleik. Leikurinn hefst kl. 16:00 og verður í beinni útsendingu hjá RÚV en einnig verður hægt að fylgjast vel með gangi mála hér á Karfan.is. Á blaðamannafundi á miðvikudag tók Karfan.is þá bræður tali og þeir eru klárir á því að það verði stuð hjá þeim sem og öllum sem mæta í Höllina.

 

Faðir þeirra bræðra er Ingvar Jónsson og er hann jafnan nefndur faðir körfuboltans í Hafnarfirði og þeir bræður léku undir hans stjórn bæði í yngri flokkum og sem leikmenn meistaraflokks Hauka. Ingvar var ekki við stjórnvölin þegar Haukar urðu bikarmeistarar árið 1996 en þá voru Pétur og Jón Arnar leikmenn Hauka. Pétur gerði 8 stig í leiknum en Jón Arnar setti niður 11 stig. Haukar lögðu þá ÍA í úrslitaleiknum 85-58.

 

,,Hann hefur mikla reynslu og þekkingu í bransanum,” sagði Jón Arnar aðspurður um karl faðir sinn og hvort þeir bræður hefðu eitthvað leitað í viskubrunn hans fyrir daginn stóra. Pétur bætti við: ,,Hann hefur kannski ekki verið mikið í hringiðu körfunnar síðustu ár en hann þekkir margt í mannlegu eðli og veit vel hvernig á að bera sig að á svona stundum,” sagði Pétur.

 

Jón og Pétur eiga von á mikilli stemmningu á morgun í Laugardalshöll en það verða ekki bara leikmennirnir sem berjast inni á vellinum. Takast þjálfarar liðanna ekkert á? ,,Ég nenni ekki að hlusta á bullið í Jóni,” sagði Pétur í léttum dúr. Jón var viss um að það yrði stuð á þeim á hliðarlínunni svo bræðrunum verður væntanlega gefinn góður gaumur á tréverkinu.

 

Mikið hefur verið rætt um að ÍR leiki hraðann bolta og að Hamar/Selfoss kunni betur við sig þegar tekst að hægja á leikjunum. George Byrd er þungur og stór í liði H/S og því ekki líklegur til afreka í hlaupaleik. En verður það ekkert annað en hraði leiksins sem mun skipta máli á morgun?

,,Það verða margir hlutir sem koma til með að skipta sköpum, þetta með leikstíl liðanna er góð og einföld útfærsla á hlutunum en það verður fullt af smáatriðum sem munu ráða úrslitum,” sagði Jón. Teigurinn verður vissulega áhyggjuefni hjá ÍR þó liðið sé nokkuð hávaxið. Miðherjar liðsins eru samt í léttari kantinum samanborið við Hamar/Selfoss. ,,Auðvitað hef ég áhyggjur af teignum og þeirra kostum og því sem þeir hafa yfir okkur sem lið og við munum reyna að finna leiðir til að bregðast við styrkleikum þeirra og þar af leiðandi hafa sigur í leiknum,” sagði Jón en vitaskuld var það hernaðarleyndarmál hvernig útfærslan á dagskipununum yrði.

 

Pétur viðurkenndi að hraðinn í leikstíl ÍR væri honum og Hamri/Selfoss áhyggjuefni. ,,Við höfum tæki til að hægja á leiknum og fara með leikinn í okkar hraða. ÍR er eina liðið að ég tel sem hefur tekist í vetur að slá okkur út af laginu með hröðum leikstíl sínum. Við þurfum að vera með á hreinu hvernig við ætlum að hægja á leiknum ef það verður það sem við ætlum að gera,” sagði Pétur nokkuð dulur í máli.

 

{mosimage}

(Ætli hann sé nokkuð að eitra fyrir mér gæti Pétur verið að hugsa á þessari mynd)

 

Bræðurnir tala mikið saman og segja þá körfubolta yfirleitt vera umræðuefnið en þessa stundina hafi þeir lítið til þess að tala um. Engu að síður ætla þeir sér að hafa gaman af morgundeginum því það gæti liðið á löngu uns þeir mætast aftur á körfuboltavellinum.

 

Deildarleikjum ÍR og Hamars/Selfoss er lokið. Liðin mættust fyrst þann 22. október þar sem ÍR fór með stórsigur af hólmi 62-90 í Fjósinu í Hveragerði. Annar leikur liðanna fór fram í Seljaskóla þann 18. janúar á þessu ári og enn og aftur hafði ÍR sigur og að þessu sinni fór leikurinn 99-76. Bæði lið hafa tekið stórstígum framförum eftir því sem liðið hefur á tímabilið og því verður forvitnilegt að fylgjast með þeim á morgun í þeirra stærsta leik á tímabilinu til þessa.

 

Viðtal og myndir: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -