,,Þetta hefur verið tilfinningarússíbani, að berjast af krafti gegn Keflavík og eiga möguleika á því að slá þá út, tapa svo gegn Keflavík og halda að tímabilið væri búið. Síðan dettur inn tilboð um að koma og hjálpa Keflavík gegn Snæfell en svo enda ég á því að velja skelfilegan tíma til að eiga hræðilegan leik. Ég vil biðja liðsfélaga mína afsökunnar og alla stuðningsmenn Keflavíkur, orð frá því ekki lýst hversu léleg frammistaða mín var í oddaleiknum en að sama skapi vil ég óska Snæfell til hamingju,“ sagði Nick Bradford leikmaður Keflavíkur í samtali við Karfan.is eftir stórtap Keflavíkur í oddaleiknum gegn Snæfell í gær. Nick var ekki par sáttur með eigin frammistöðu en hann skoraði 6 stig í leiknum.
Vafalítið var það ekki einfalt mál fyrir Bradford að skipta úr Njarðvík yfir í Keflavík til að hjálpa Keflvíkingum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn enda þarf vart að tíunda hér að þessi tvö lið hafa löngum eldað grátt silfur saman í boltanum.
,,Ég er atvinnumaður og hef leikið til fjölda ára sem slíkur og verð að nálgast málið með þeim forsendum. Þetta er körfubolti, maður heldur út á völlinn án afsakanna og gerir sitt besta en ég steig klárlega ekki upp til þess að gera það sem Keflavík þurfti á að halda,“ sagði Bradford en er hann fær um að gleðjast ögn fyrir hönd Hólmara í ljósi sögunnar hjá Keflavík og Snæfell og fyrri vistaskiptum þeirra í úrslitum?
,,Já, í hvert skipti sem ég hef leikið á Íslandi hefur mitt lið bundið enda á þeirra leiktíð svo ég er viss um að þeim finnist ekki leiðinlegt að vinna liðið sem ég er að spila með. Þetta er fyrsti titillinn í sögu Snæfells svo þeir eiga skilið að fá hamingjuóskir og ég vona bara að þeir njóti augnabliksins.“
Viðtal: [email protected]
Ljósmynd/ Sölvi Logason: Nick Bradford var allt annað en sáttur með frammistöðu sína í oddaleiknum í gærkvöldi.



