spot_img
HomeFréttirBoston vann Miami… aftur! Denver tóku meistarana

Boston vann Miami… aftur! Denver tóku meistarana

 
Fyrsti leikur tímabilsins var engin smá rimma í NBA deildinni en þá mættust Boston Celtics og Miami Heat. Liðin mættust aftur í nótt og mátti fersk kryddað lið Miami sætta sig við ósigur öðru sinni á skömmum tíma. Lokatölur leiksins voru 107-112 Boston í vil þar sem Ray Allen smellti niður 7 af 9 þristum sínum í leiknum og kvaddi með 35 stig.
Rajon Rondo var iðinn við að þefa uppi liðsfélaga sína, kappinn setti 8 stig en gaf 16 stoðsendingar. Hjá Miami var LeBron James allt í öllu með 35 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Eftir leikinn í nótt eru Boston efstir á austurströndinni 7-2 en Miami er í 5. sæti 5-4.
 
Meistarar Los Angeles Lakers töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu í nótt þegar þeir lágu úti gegn Denver Nuggets 118-112. Carmelo Anthony gerði 32 stig og tók 13 fráköst í sigurliði Nuggets. Kobe Bryant rauf 26.000 stiga múrinn í nótt en hann skoraði 34 stig í leiknum og varð yngsti leikmaður NBA deildarinnar frá upphafi til þess að fara yfir 26.000 stig!
 
Þá tók Chicago á móti Golden State og reyndist það snörp kennslustund þar sem Bulls unnu örugglega 120-90. Luol Deng gerði 26 stig og tók 11 fráköst í liði Bulls en hjá Golden State var Monta Ellis með 24 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.
 
Mynd/ Carmelo Anthony fór mikinn gegn Lakers í nótt.
 
Fréttir
- Auglýsing -