12:40:45
Boston Celtics sigurðu Detroit Pistons örugglega í nótt og unnu þar með tíunda sigur sinn í röð. Lakers héldu einnig sínu striki og lögðu Minnesota Timberwolves, Denver vann Charlotte og Cleveland sigraði hið lánlausa lið LA Clippers.
Nánar um leiki næturinnar hér að neðan…
Boston-Detroit 86-78
Boston virðist hafa fundið vinningsformúluna á nýjan leik, en eftir hræðilegan kafla í kringum jól og áramót hafa þeir unnið 10 leiki í röð og virðast til alls líklegir.
Sjálfsagt kemur það fæstum á óvart að stigashæstir í liði Boston voru Kevin Garnett með 22 stig, Paul Pierce með 20 og Ray Allen með 14.
Hjá Detroit voru það bakverðirnir Rodney Stuckey og Allen Iverson sem fóru fyrri hópnum, hvor með 19 stig. Með þessum 19 stigum komst Iverson upp fyrir Charles Barkley í 16. sæti yfir stigahæstu menn NBA frá upphafi.
Iversons sagði að hann hyggðist skáka Barkley í öðrum tölfræðiþætti, en það var að vinna meistaratitil, en eins og flestir vita gerðist Sir Charles aldrei svo frægur og vill Iverson ekki enda ferilinn án titils.
Lakers-Minnesota 132-119
Lakers gefur ekkert eftir í toppbaráttunni og lagði Minnesota, sem hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undir stjórn Kevins McHale að undanförnu. Leikurinn var hraður og skemmtilegur eins og lokatölurnar gefa til kynna, en Kobe Bryant og skrímslið unga Andrew Bynum leiddu Lakers til sigurs.
Kobe var með 30 stig og 8 fráköst, Bynum var með 27 stig og 15 fráköst á aðeins 30 mínútum og Pau Gasol bætti við 21 stigi og 9 fráköstum.
Hjá Minnesota var Al Jefferson með 34 stig og 13 fráköst.
Denver-Charlotte 110-99
Carmelo Anthony sneri aftur eftir meiðsli í nótt og var lykilmaður í sigri Denver á Charlotte, sem lék án Gerald Wallace, sem meiddist í leik gegn Lakers í vikunni.
Denver lenti ekki í teljandi vandræðum í þessum leik þar sem þeirra bestu menn voru að gera góða hluti, en Nene var með 22 stig og hitti úr 9 af 10 skotum, Linas Kleiza var með 21, Anthony gerði 19 stig og Chauncey Billups stóð fyrir sínu líkt og endranær.
Raja Bell var stigahæstur hjá Charlotte með 27 stig.
Cleveland-Clippers 112-95
Clippers hefur gengið hræðilega undanfarið m.a. vegna meiðslavandræða og hefur tapað 18 af síðustu 20 leikjum sínum. Þeir áttu því ekki von á góðu að mæta LeBron James og félögum í Cleveland Cavaliers sem hafa verið ósigrandi á heimavelli.
Clippers stóðu þó í þeim framan af en máttu játa sig sigraða á lokasprettinum þar sem Cavs tóku sig á í vörninni og stungu af. Zydrunas Ilgauskas var kominn aftur eftir mánaðarfjarveru vegna meiðsla og var með 20 stig og 11 fráköst, LeBron James var með 25 stig og Mo Williams var með 23 stig fyrir Cleveland sem hefur unnið alla 22 heimaleiki sína í vetur.
Nýliðinn Eric Gordon var stigahæstur Clippers með 27 stig.
Önnur úrslit:
Washington 94
Philadelphia 104
New Jersey 88
Atlanta 105
ÞJ



