Boston Celtics ætla sér greinilega ekki að slá slöku við og unnu í nótt annan leikinn gegn Orlando Magic í úrslitum Austurdeildarinnar, 92-95. Báðir leikirnir fóru fram í Orlando og nú geta Celtics tryggt sig í úrslit NBA með því að sigra tvo næstu leiki sem fara fram í Boston Garden.
Boston-menn hafa svo sannarlega vaknað til lífsins í úrslitakeppninni þar sem þeir slógu LeBron James og félaga úr leik í siðustu umferð og eru nú að taka Orlando í kennslustund, en þeir höfðu unnið 14 leiki í röð fyrir þessa rimmu.
Celtics hafa að miklu leyti fylgt Rajon Rondo þar sem hann stýrir sóknarleiknum af miklum hraða, en lykillinn er í varnarleiknum þar sem stóru mennirnir, Kevin Garnett, Kendrick Perkins, Raheed Wallace og Glen Davis hafa lumbrað miskunnarlaust á Dwight Howard og slegið þannig helstu vopnin úr höndum Magic. Það opnar svo fyrir hraðaupphlaupin þar sem Rondo er einráður.
Í nótt byrjuðu Celtics betur, líkt og í fyrri leiknum, og aftur komust Magic inn í leikinn af mikilli seiglu, en aðeins of seint.
Vince Carrter klikkaði á tveimur vítum á lokasprettinum og Jameer Nelson fékk færi á að jafna leikinn á lokasekúndunni en skotið hans geigaði.
Nú liggur leiðin til Boston þar sem ríður á fyrir bæði lið að standa sig. Árangur Celtics á heimavelli í vetur hefur verið arfaslakur og þeir töpuðu einnig heimaleik gegn Cleveland, en ef einbeitingin og baráttan verður svipuð hjá þeim og hefur verið undanfarið eiga Magic ekki von á góðu.
Paul Pierce var með 28 stig fyrir Celtics og Rondo var með 25 á meðan Howard skoraði 30 stig fyrir Magic. Hann var þó bara með 8 fráköst í leiknun og ekkert varið skot, sem þykir tíðindum sæta á þeim bænum. Carter og JJ Redick komu honum næstir með 16 stig.



