spot_img
HomeFréttirBoston bjóða Allen og Rondo í skiptum

Boston bjóða Allen og Rondo í skiptum

11:15:25

{mosimage}

Boston Celtics eru farnir að falbjóða bæði Ray Allen og Rajon Rondo í tilraunum sínum til að endurbyggja liðið, ef eitthvað er að marka NBA-spekinga vestanhafs. Allen, sem er 34 ára, er á sínu síðasta samningsári þar sem hann mun þéna um 20 milljónir dala og gæti því verið freistandi þó ekki væri nema til að losa um undir launaþakinu. Rondo er hins vegar ungur og efnilegur leikstjórnandi sem blómstraði í úrslitakeppninni og verður sennilega meðal bestu manna í sinni stöðu ef hann heldur rétt á spöðunum.
Nánar hér að neðan…

Fregnir herma að undirmenn Danny Ainge, framkvæmdastjóra Boston, hafi spurst fyrir um möguleikana á skiptum á þeim tveimur og þremur leikmönnum Detriot Pistons, þeim Tayshaun Prince, Rip Hamilton og Rodney Stuckey. Joe Dumars hjá Detroit var skiljanlega ekki mjög hrifinn af þeirri hugmynd að senda frá sér þrjá verðmætustu leikmenn sína og gaf fljótt afsvar.
Þó Rondo hafi komið mjög á óvart með firnagóðri frammistöðu í úrslitakeppninni og ekki sé hægt að efast um að þar fari hæfileikaríkur leikmaður, eru þó sett spurningarmerki vð hann, m.a. vegna þess að hann er ekki mjög góður skotmaður að því ógleymdu að sumum þykir hann ekki hegða sér alfarið eins og atvinnumanni sæmir, þó ekki sé um stór frávik að ræða.
Það er bæði ástæða þess að Ainge veigrar sér við að gera dýran langtímasamning við hann og einnig að Dumars sé óviljugur til að láta annan hæfilekaríkan og efnilegan leikstjórnanda, Stuckey, í hans stað.
Boston verða hins vegar að reyna allt hvað þeir geta til að fylla í skörðin hjá sér eftir því sem meistaraþríeykið þeirra, Garnett, Pierce og Allen, eldist. Þó allt komi fyrir ekki og Allen verði áfram í herbúðum þeirra næsta vetur munu þeir þó eiga mikið svigrúm  til að fá til sín einn af hinum fjölmörgu leikmönnum sem verða með lausa samninga um leið og stórskyttan frækna.

H: Yahoo! Sports

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -