07:54:25
Utah Jazz minnkaði muninn í einvíginu gegn LA Lakers niður í 2-1 í nótt með sigri í spennuleik, 88-86. Á meðan komst Dallas í 2-1 með sigri á SA Spurs, 88-67, og meistarar Boston tóku aftur frumkvæðið í rimmunni gegn Chicago Bulls með sannfærandi sigri, 86-107.
Margir voru farnir að telja Boston Cetics af eftir að Kevin Garnett meiddist og ekki lyftist á þeim brúnin þegar Leon Powe bættist við á meiðslalistann og Rajon Rondo virtist finna til í ökkla í öðrum leiknum. Það kom þó ekki að sök í þriðja leik liðanna og þeim fyrsta í Chicago þar sem Boston áttu gólfið.
Lykilmenn Chicago sáust varla allt kvöldið á meðan Rondo, Ray Allen, Paul Pierce og meira að segja Stephon Marbury, fóru sínu fram. Pierce var með 24 stig, Rondo 20 og Allen 18. Hjá Chicago var Ben Gordon með 15 stig og John Salmons og Kirk Hinrich gerðu 14 hvor.
Lakers eiga greinilega ekki að fá að sigla óáreittir í gegnum fyrstu umferðina, því Jazz mættu til leiks í nótt tilbúnir í stríð og fór Carlos Boozer þar fremstur í flokki. Eftir kaflaskiptan leik var þrúgandi spenna á lokakaflanum þar sem Jazz var þó með frumkvæðið. Lakers jafnaði fjórum sinnum á síðustu tveimur mínútunum, en alltaf komust Jazz yfir á ný. Síðustu körfuna gerði Deron Williams 2 sek fyrir leikslok, en hann hafði þó átt slakan leik fram að því.
Boozer átti stórleik þar sem hann skoraði 23 stig og tók 22 fráköst, sem er jöfnun á liðsmeti Karl Malone í úrslitakeppni, Wiiliams var með 13 og Ronnie Brewer var með 12. Hjá Lakers var Lamar Odom stigahæstur með 21 stig og 14 fráköst, Pau Gasol var með 20 stig og Kobe Bryant gerði 18. Andrew Bynum lék aðeins í 7 mínútur en hann er enn að jafna sig eftir hnémeiðsli fyrr í vetur.
Loks unnu Dallas Mavericks góðan sigur á San Antonio, sem átti hræðilegan leik. Dallas lokuðu á allt sem heitið gat sóknarleikur hjá Spurs og þegar þriðji leikhluti var hálfnaður voru allir byrjunarliðsmenn þeirra teknir af velli þar sem úrslitin voru ráðin. Tony Parker var eini byrjunarliðsmaðurinn sem skoraði meira en 7 stig og sjálfur Tim Duncan var með 4 sem hlýtur að jaðra við það versta sem hefur sést hjá honum á ferlinum.
Hjá Dallas var Dirk Nowitzki með 20 stig og Josh Howard með 17.
Í kvöld eigast við Cleveland og Detroit, Orlando og Philadelphia og loks Portland og Houston.
ÞJ



