spot_img
HomeFréttirBorgnesingar blómstruðu í blálokin

Borgnesingar blómstruðu í blálokin

Skallagrímur leiðir 1-0 gegn Fjölni í úrslitum 1. deildar karla eftir 79-81 háspennusigur í Dalhúsum. Heimamenn í Fjölni fóru illa að ráði sínu á lokasprettinum á meðan Borgnesingar gáfu í og unnu síðustu fimm mínútur leiksins 8-20! Heimamenn í Grafarvogi voru við stýrið nánast allan leikinn og mega naga sig í handarbökin yfir niðurstöðunni en Borgnesingar að sama skapi sýndu afbragðs þolgæði með sigrinum og hafa nú hrifsað til sín heimaleikjaréttinum eftirsótta.

Jean Rony Cadet gerði 23 stig og tók 13 fráköst í liði Skallagríms í kvöld og Sigtryggur Arnar Björnsson gerði 20 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Reynslunautið Hafþór Ingi Gunnarsson minnti rækilega á sig með 9 stig í kvöld og á lokasprettinum átti hann nokkra öfluga punkta í viðsnúningi Skallagríms. Hjá Fjölni var Collin Pryor atkvæðamestur með 21 stig, 19 fráköst og 4 stoðsendingar og þá átti Bergþór Ægir Ríkharðsson virkilega sterka spretti með 20 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. 

 

Liðin tóku sér fyrstu þrjár mínútur leiksins í að hlaupa af sér hrollinn og náðu ekki að skora en þegar hann datt komust heimamenn í Fjölni fljótt í 7-2. Borgnesingar hittu ekki neitt á upphafsmínútunum en náðu loks taktinum og jöfnuðu 11-11. Það voru þó Fjölnismenn sem leiddu 18-17 að loknum fyrsta leikhluta og þó skotnýtingin hafi verið dræm beggja megin vorum við engu að síður með líflegan og kraftmikinn leik í gangi. 

 

Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson kom Fjölni í 23-22 í upphafi annars leikhluta en liðin nýttu þann hluta í að skiptast á forystunni. Þegar tæpar þrjár mínútur voru til hálfleiks fór Atli Aðalsteinsson af velli í liði Skallagríms eftir að hafa farið úr axlarlið á hægri öxl. Atli var fluttur á sjúkrahús til að verða settur aftur í liðinn. 

 

Fjölnismenn leiddu svo 36-35 í hálfleik þar sem Pryor var með 12 stig og 9 fráköst í liði heimamanna en Sigtryggur Arnar með 8 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar í liði Skallagríms. 

 

Skotnýting liðanna í hálfleik: 

Fjölnir: Tveggja 54% – þriggja 20% – víti 50% (3-6)

Skallagrímur: Tveggja 37% – þriggja 18% (2-11) – víti 50% (3-6)

 

Bergþór Ægir Ríkharðsson átti þriðja leikhluta, snemma í síðari hálfleik skellti kappinn í átta stiga bunu fyrir Fjölni sem komust í 46-39. Bæði lið stokkuðu nokkuð upp í varnarleik sínum í kvöld, sáum bæði lið bregða milli svæðisvarna og maður á mann varnar og heimamönnum virtist líka þetta ágætlega enda leiddu þeir 60-51 fyrir fjórða og síðasta hluta. 

 

Þarna í þriðja leikhluta var dáðasti sonur Borgarness, Hafþór Ingi Gunnarsson, farinn að hóta því að virkja dísilvélina en kunnuglegir taktar fóru að sjást enda almenn vitneskja að Hafþór þrífst í spennuleikjum eins og hrúðurkarl í skipsstafni. 

 

Valur Sigurðsson kom Fjölni í 71-61 með þrist þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Á þessum tímapunkti virtust heimamenn hreinlega fara í það að verja forystuna og Borgnesingar hjóluðu í málið. Téður Hafþór hrúðurkarl gæddi sér á sóknarfrákasti, skoraði og fékk villu að auki og minnkaði muninn í 75-71 þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. 

 

Skömmu síðar minnkaði Sigtryggur Arnar muninn í 74-75 með þrist. Upp úr ætlaði að sjóða þegar Cadet komst inn í sendingu Fjölnismanna og var á leið í einhverskonar skrímslatroðslu þegar Pryor braut á honum og aðeins dæmd venjuleg villa…gestunum til lítillar ánægju sem heimtuðu óíþróttamannslega villu en fengu ekki. Cadet hélt á línuna og kemur Skallagrím yfir 79-80! 

 

Þegar hálf mínúta var eftir fékk Pryor boltann í teignum og brenndi af sniðskoti sem dansaði af hringnum. Fjölnismenn brutu á Sigtryggi Arnari sem fékk tvö víti, setti fyrra en brenndi af því síðara og staðan 79-81 þegar heimamenn brunuðu í sókn. Pryor fékk boltann utan við þriggja stiga línuna, fór í erfitt skot sem Cadet náði að slæða hendinni til. Frákastið af varða skotinu barst til Sindra Kárasonar sem tók þrist og skoraði en dómarar leiksins ráðfærðu sig fljótt við eftirlitsdómara leiksins og þurftu ekki myndbandsupptöku til að dæma um að karfan hafi verið ógild og sigur Skallagríms því í höfn. 

 

Borgnesingar lokuðu síðustu fimm mínútum leiksins 8-20. Aðgerðir heimamanna fóru í baklás á meðan gestunum virtist líða mun betur þegar allt væri komið í járn enda nýkomnir úr umfangsmiklum járnabindingum frá einvíginu gegn Val. 

 

Liðin mætast í sínum öðrum leik þann 17. apríl næstkomandi en þá verður leikið í Fjósinu í Borgarnesi. Skallagrímur leiðir 1-0 en vinna þarf þrjá leiki til þess að hoppa upp í Domino´s-deildina.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn – Bára Dröfn

Umfjöllun – Jón Björn 

Fréttir
- Auglýsing -