spot_img
HomeFréttirBorðar stemmningin börnin sín?

Borðar stemmningin börnin sín?

Handhafar allra titla, Valsmenn, hafa ekki þótt neitt sérstaklega sannfærandi í úrslitakeppninni hingað til. Þrátt fyrir það er komið að þriðja leik úrslitarimmunnar, staðan 1-1 og Hlíðarendapiltar gætu tekið næstsíðasta skrefið í titilvörninni. Valsarar töpuðu fyrsta leik í átta liða úrslitum, fjögurra liða úrslitum og í úrslitunum sjálfum en þeir virðast bara hafa gaman af því að mæta á útivelli og drepa stemmningu og drauma landsbyggðarinnar!

Allir þekkja þá sögu að norðanmenn dreymir um þann stóra og hafa lengi gert. Liðið er einstaklega vel mannað að þessu sinni og nákvæmlega ekkert vantar upp á stuðning og stemmningu þeirra megin! En það er með stemminguna eins og annað – allt sem fer upp kemur niður aftur og spurning hvort stemmningin sé eins og byltingin?

Kúlan: Kúlan er í rífandi úrslitastemmningu og frá henni heyrist eftirfarandi vísulús:

Stemmningin alveg ótrúleg

ná Stólar þeim stóra í vetur?

Eða liggur leiðin byltingarveg

sem af bestu lyst börnin sín étur?

Tónninn í Kúlunni segir okkur að stemmningin verði Stólum til trafala, a.m.k. að þessu sinni, og Valsmenn koma sér í 2-1 með 90-79 sigri í kvöld.

Byrjunarlið

Valur: Kristó, Pablo, Booker, Kári, Callum

Tindastóll: Drungilas, Arnar, Badmus, Pétur, Woods

Gangur leiksins

Leikurinn hófst á kurteisislegan hátt og liðin skiptust á nokkrum körfum. Íslandsmeistararnir stigu þá á bensínið varnarlega og lokuðu öllum leiðum að körfunni og komu sér 14-8 yfir um miðjan leikhlutann. Gestirnir áttu hins vegar næstu 2 mínútur í leiknum, settu 9 stig í röð og komu sér yfir í 14-17. Að fyrsta leikhluta loknum var allt í járnum, 21-21.

Valsmenn settu fyrstu 5 stig annars leikhluta og Pavel leist ekki á blikuna og tók leikhlé. Það kom ekki í veg fyrir enn einn þristinn frá Kára sem setti stöðuna í 29-21. Það tók gestina 3 mínútur að skora fyrstu stigin sín í leikhlutanum og komu þau úr óvæntri átt eða frá Ragnari Ágústssyni. Pétur Rúnar setti stuttu síðar fyrsta þrist Stólanna í leiknum í elleftu tilraun liðsins og minnkaði muninn í 31-28. Kári svaraði strax í sömu mynt og má segja að vörn gestanna hafi ekki verið til að auka gestunum bjartsýni. Í hálfleik leiddu Valsmenn 49-42 og útlitið gott fyrir heimamenn. Kári Jónsson var staddur í annarri vídd í fyrri hálfleik, setti 17 stig, 5/5 í þristum og 2/2 í vítum! Woods var stigahæstur gestanna með 12 stig.

Booker hlóð í múrinn góða með þristi úr miðbænum í byrjun seinni hálfleiks og kom sínum mönnum 10 yfir, 54-44. Þá var komið að þætti Adomas Drungilas sem virðist geta tekið upp á því, einkum þegar mikið liggur við, að hitta alltaf! Hann raðaði þristum í leikhlutanum og skyndilega og allt í einu stóðu leikar jafnir 57-57 um miðjan leikhlutann og Finnur tók leikhlé. Það hafði ekkert að segja og Drungilas hélt uppteknum hætti og gestirnir leiddu 60-65! Ástþór kom svalur inn af bekknum fyrir Valsara á þessum tímapunkti og minnkaði muninn í 66-67 en annar ungur og efnilegur, Ragnar Ágústsson, svaraði fyrir sína menn og Stólarnir leiddu 66-70 fyrir lokafjórðunginn.

Ragnar hóf lokaleikhlutann eins og hann endaði þann þriðja en Valsmenn svöruðu fyrir sig og minnkuðu muninn í 70-73. Þegar um 8 mínútur lifðu leiks var staðan 70-75 og þá tóku taugarnar algerlega yfir leikinn og hvorugt liðið setti stig á töfluna í næstum 4 mínútur! Næsta karfa var því nánast eins og sigurkarfa í leiknum og Callum fékk tækifæri til þess að setja hana af vítalínunni en klúðraði báðum skotunum! Í framhaldi af því fékk Badmus sama tækifæri og nýtti bæði skotin og setti stöðuna í 70-77. Badmus setti 2 mikilvæg stig skömmu síðar, þá var staðan 72-81, aðeins 2:47 eftir, Finnur tók leikhlé og tíminn allt í einu að renna frá heimamönnum. Woods gerði svo gott sem út um leikinn með sínu eina þriggja stiga skoti í leiknum þegar tæpar 2 mínútur voru eftir og tíminn einfaldlega of naumur fyrir Valsmenn. Lokatölur 79-90, svakalegur sigur norðanmanna staðreynd!

Menn leiksins

Keyshawn Woods var í raun ekkert voðalega áberandi í leiknum en var stigahæstur sinna manna með 21 stig, tók að auki 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Nefna verður þátt Ragnars Ágústssonar sem setti 10 stig af bekknum á 13 mínútum og spilaði einnig mjög vel varnarlega.

Kári Jóns var stigahæstur Valsmanna með 19 stig en aðeins 2 þeirra komu í síðari hálfleik.

Kjarninn

Stólarnir hafa nánast allt með sér, frábært lið, frábæran stuðning og Pavel við stjórnvölinn! Fleiri en undirritaður hefur í raun mestar áhyggjur af því fyrir hönd Stólanna hvort þessi yfirgengilega stemmning sem ríkir hreinlega á landinu öllu geti mögulega keyrt um þverbak og sett of mikla pressu á liðið – það hefur nefnilega gerst áður oftar en einu sinni. Mögulega eru slíkar hugleiðingar bara þvæla, við skulum bara njóta þess að hlakka til mánudagsins og við sjáum hvort bikarinn fari á loft í Skagafirðinum í fyrsta skipti í sögunni!

Valsmenn voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og undirritaður skilur ekki alveg af hverju heimamenn leiddu bara með 7 stigum í hálfleik. Vörnin var fantagóð fyrir utan allra fyrstu mínúturnar og þriggja stiga nýting liðsins frábær eða um 60%! En lögmál meðaltalsins taka alltaf í taumana að lokum og skotnýtingin fór niður á við í seinni hálfleik. Vandamálið var þó kannski meira það að Valsvörnin gaf svolítið eftir er á leið, gestirnir fóru loks að setja einn og einn þrist og einhvern veginn molnaði undan þessu hjá Íslandsmeisturunum. Það er þó engin ástæða til að afskrifa Valsmenn, þeir hafa jú unun af því að gera drauma landsbyggðarinnar að engu!

  • Kúlan er brjáluð yfir mistúlkun undirritaðs á vísulúsinni! Loksins hitti Kúlan á hárréttar tölur…!
  • Ung stúlka að norðan smellti þristi á milli þriðja og fjórða leikhluta sem tryllti stúkuna gersamlega! Hún á þátt í sigri gestanna þó stigin þrjú hafi ekki ratað upp á töflu!
  • Helgin verður löng fyrir norðan…menn hljóta margir hverjir bara að marinera sig fram á mánudag…

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

https://www.karfan.is/2023/05/forrettindi-ad-spila-fyrir-thennan-klubb-og-fyrir-thetta-folk/
https://www.karfan.is/2023/05/their-gerdu-betur-en-vid/
https://www.karfan.is/2023/05/vid-thurfum-bara-ad-halda-haus/
https://www.karfan.is/2023/05/eigum-skilid-ad-vera-i-thessari-stodu/
https://www.karfan.is/2023/05/thetta-snyst-um-ad-vinna-thrja-leiki/
Fréttir
- Auglýsing -