spot_img
HomeFréttirBorche var sæmilega brattur þrátt fyrir tap "Þurfum klárlega að spila betri...

Borche var sæmilega brattur þrátt fyrir tap “Þurfum klárlega að spila betri vörn”

Valur lagði ÍR í kvöld í annarri umferð Dominos deildar karla, 90-96. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum, hvort um sig með einn sigur og einn tapaðan leik.

Karfan spjallaði við þjálfara ÍR Borche Ilievski eftir leik í Hellinum í kvöld.

Þetta var ansi sveiflukennt í kvöld – til að byrja með fannst mér varnaleikurinn alveg skelfilegur hjá þínum mönnum, einkum í fyrsta leikhluta?

Já, það er rétt, sérstaklega í fyrsta leikhluta. Við gerðum mikið af mistökum og vorum í vandræðum með vagg og veltu-vörnina, ekki síst gegn Kristó þegar hann rúllaði á körfuna og hjálparvörnin var ekki mætt tímanlega og þeir fengu auðveldar körfur. Við fengum 96 stig á okkur og það segir allt um það að gæði varnarinnar voru ekki mikil í kvöld…

Þið breyttuð svo vörninni snemma í öðrum leikhluta og spiluðuð svæðisvörn…

…við fórum jú í svæðisvörn á kafla eingöngu vegna vandræðanna gegn vagg og veltunni og það gekk vel. En okkur gekk svo betur  með maður á mann-vörnina í þriðja leikhlua, við vorum 7-8 stigum undir og tókst að ná forystu eftir að Gúzzi kom inn á aftur. Við héldum því frameftir leik þar til lítið var eftir. En hvað sem því líður hefðum við átt að vinna þennan leik, við misstum nokkur opin skot í þessum jafna leik og það gerði útslagið, Danero missti t.d. skot sem hann er vanur að setja. Þetta var ekki hans kvöld.

Vandamálið er svolítið það að við erum að bíða eftir stórum manni og Evan á eftir að komast í betri takt en hann kom til æfinga fyrir aðeins 2 dögum. Ég held að það eigi eftir að skipta sköpum fyrir okkur.

Gúzzi kom skemmtilega á óvart í kvöld?

Gúzzi er að koma aftur eftir að hafa verið frá í 7 ár og eftir feril í boxi! Það kemur þér kannski á óvart og hann kom mér á óvart þegar hann birtist á æfingu í júní! Hann kann ýmislegt fyrir sér og ég er mjög ánægður með hann – við þurfum að spila honum og Benóný meira og gera þá betri yfir tímabilið.

Já, þetta kom skemmilega á óvart!

já, ég sagði Finni Frey að ég væri að koma honum á óvart með því að hafa Gúzza í byrjunarliðinu!

En þú byrjar ekki með Evan á vellinum…

Hann kom til æfinga fyrir 2 dögum eins og ég sagði áður…hann er ekki alveg í takti, þetta er ekki taktísk ákvörðun að byrja með hann á bekknum. En hann kemur til í komandi leikjum, ég þarf því miður að spila hann inn í þetta í leikjum en ekki á æfingum.

Akkúrat, þú ert sennilega bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir ósigur í kvöld?

Ég er bjartsýnn fyrir alla leiki, ég var bjartsýnn fyrir þennan leik, þetta var líka jafn leikur. Við förum á Egilsstaði í næsta leik og býst við góðum leik, þeir hafa góða útlendinga þar. Ég veit ekki hvernig fór hjá þeim í kvöld en þetta er hættulegt lið og á heimavelli. Við þurfum klárlega að spila betri vörn gegn þeim en í kvöld ef við ætlum okkur sigur gegn þeim.

Viðtal / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -