spot_img
HomeFréttirBöðvar: KR mun ekki kæra

Böðvar: KR mun ekki kæra

Böðvar Guðjónsson varaformaður KKD KR og formaður meistaraflokksráðs karla segir að KR muni ekki kæra atvikið sem átti sér stað í Síkinu í gær í viðureign Tindastóls og KR. Eins og flestum er orðið kunnugt sló Anthony Gurley til Helga Magnússonar eftir að sá síðarnefndi hafði tékkað í bakið á Gurley með ólöglegri hindrun.

Karfan.is setti sig áðan í samband við Böðvar Guðjónsson sem sagði: „KR mun ekki kæra. Það er í höndum dómara að skoða atvikið og meta.“

Þetta þýðir að ef nokkuð verður aðhafst í málinu þá verði það eins og reglugerð um aga- og úrskurðarnefnd kveður á um. Þar segir:

6. SÉRSTAKAR MÁLSMEÐFERÐARREGLUR VEGNA AGAMÁLA

Aga- og úrskurðarnefnd úrskurðar um þau atriði, sem fram koma í atvikaskýrslum dómara KKÍ í leikjum í mótum á vegum KKÍ (Íslandsmót, bikarkeppni, fyrirtækjabikar, meistarakeppni og landsleikir) enda fjalli hvorki FIBA World né FIBA Europe um málið.

Dómaranefnd KKÍ hefur kæru – og ábendingarrétt til aga- og úrskurðarnefndar. Jafnframt hefur aga- og úrskurðarnefnd heimild til að úrskurða um öll önnur mál sem nefndin telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna körfuknattleiksleikja sem fram fara á Íslandi enda fjalli ekki aðrir um þau.

Aðrir aðilar en að framan greinir hafa ekki kærurétt til aga- og úrskurðarnefndar. Þó er þeim aðilum er hafa bein tengsl við leiki í mótum á vegum KKÍ (Íslandsmót, bikarkeppni, fyrirtækjabikar, meistarakeppni og landsleikir) heimilt að leggja fram hvers kyns gögn eða skriflegar athugasemdir til aga- og úrskurðarnefndar sem ábendingu um agabrot. Skal aga- og úrskurðarnefnd meta það sjálfstætt hvort slík ábending gefi tilefni til málsmeðferðar í samræmi við heimildir nefndarinnar skv. 7. mgr. 6. gr. reglugerðar þessarar. Ef ábending gefur ekki tilefni til málsmeðferðar að mati nefndarinnar er ekki þörf á formlegri eða rökstuddri ákvörðun þess efnis frá nefndinni.

Fréttir
- Auglýsing -