08:15
{mosimage}
(Böðvar með sigurlaunin frá Iceland Express, 700.000,- kr. úttekt)
,,Þessi dagur heppnaðist fullkomnlega! Aðsóknin frábær og stemmningin fullkomin. Ég vil bara þakka Grindvíkingum fyrir frábæra seríu, innanvallar sem utan,“ sagði Böðvar Guðjónsson formaður Körfuknattleiksdeildar KR í samtali við Karfan.is eftir að KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 84-83 sigri á Grindavík í gærkvöldi.
Er formaður á leiðinni núna í langt og gott frí eftir annasaman vetur?
,,Nei nei, ég er orðinn vanur núna,“ svaraði Böðvar kátur í bragði.
Tveir Íslandsmeistaratitlar á þremur árum, er það ekki góð viðurkenning á því mikla starfi sem þú og stjórn KR ásamt fjölda öðru fólki hafið verið að sinna í Vesturbænum?
,,Jú, ég er með ofboðslega öfluga stjórn sem er ótrúlega gaman og gott að vinna með og frábæra leikmenn, frábæra þjálfara í meistaraflokki karla og kvenna og án þess að vera væminn er óhætt að segja að þetta sé orðin ein stór fjölskylda,“ sagði Böðvar formaður KKD KR en þeir félagar í Vesturbænum hafa skapað ný viðmið í umgjörð körfuboltaleikja á Íslandi með beinum útsendingum, grilluðum borgurum og dyggum stuðningsmönnum svo fátt eitt sé nefnt.



