spot_img
HomeFréttir„Bobby Sig“ bar Dalhúsadrengi á herðum sér

„Bobby Sig“ bar Dalhúsadrengi á herðum sér

Sigurður H. Leifsson og frú hafa reynst körfuknattleiksdeild Fjölnis vel hin síðsutu ár. Fimm börn og eitt þeirra bar Fjölnisliðið á herðum sér í kvöld þegar tvö mikilvæg stig urðu eftir í Grafarvogi með sigri Fjölnis á Þór Þorlákshöfn. Kynstærð Sigurðar og fjölskyldu er slík að það jafnast nánast á við Kennedy-ana í Bandaríkjunum. Það var því viðeigandi að Róbert Sigurðsson (H. Leifssonar) fengi viðurnefnið „Bobby Sig“ fyrir afrek sín í kvöld. Róbert skvetti niður 25 stigum, tók 6 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í 92-84 sigri Fjölnis. Hann dró vagninn þegar mest var undir og setti 15 stig í fjórða leikhluta.
 
 
Með sigrinum í kvöld jafnaði Fjölnir ÍR að stigum og hafa nú bæði lið 10 stig í 10.-11. sæti deildarinnar. ÍR hefur betur innbyrðis og bæði lið eiga fjögur stig í pottinum.
 
Beljakinn á blokkinni, Grétar Ingi Erlendsson, reyndist Fjölni illur viðureignar á upphafsmínútum leiksins og var fljótt búinn að skola niður 10 stigum. Heimamenn voru ekki feimnir við að hlaupa með ærslabelgjunum úr Þorlákshöfn og brenndu sig nokkrum sinnum á því enda fengu þeir 32 stig yfir sig í fyrsta leikhluta, staðan 25-32 fyrir gestina úr Þorlákshöfn. Róbert Sigurðsson átti flottar rispur hjá Fjölni en varnarleikur heimamanna var of linur og þar þurfti að gera verulega bót í máli.
 
Eins og við manninn mælt lagaðist varnarleikur beggja liða en Fjölnismenn héldu það ekki út allan leikhlutann og Þór leiddi 46-52 í hálfleik. Tómas Heiðar Tómasson reyndist uppeldisklúbbnum erfiður í fyrri hálfleik og Emil Karel átti einnig sterkar rispur en þá stuttu stund sem Darrin Govens var á tréverkinu í öðrum leikhluta hikstaði Þór allverulega.
 
Róbert Sigurðsson tók betur og betur við sér með hverri mínútunni í síðari hálfleik. Þórsarar léku stíft á honum en hann hristi það vel af sér og þegar Emil Þór Jóhannsson og Jonathan Mitchell fóru að leggja líka í púkkið kom hikst í varnarleik gestanna. Heimamenn náðu að jafna metin og komast yfir en Þór átti lokaorðið í þriðja leikhluta og leiddu 67-68 fyrir þann fjórða og síðasta.
 
Fjórði leikhluti var eign „Bobby Sig.“ Strákurinn kom Fjölni í 74-72 með körfu og villu að auki og aftur í 77-76 með þrist og enn aftur með öðrum þrist kom hann Fjölni í 84-76. Kappinn fléttaði saman þarna bráðnauðsynlegan sigur Fjölnis og kórónaði síðan frammistöðuna með einum killer-þrist og kom Fjölni í 90-80! Lokatölur 92-84 eins og áður greinir og gulir eru á lífi í deildinni en mega ekki fagna of lengi, framundan er erfiður leikur gegn Grindavík í Röstinni strax núna næsta sunnudag.
 
Róbert kláraði leik með 25 stig, 6 fráköst og 9 stoðsendingar og Jonathan Mitchell bætti við 25 stigum og 13 fráköstum. Fólk ætti síðan að gera sér hópferð til Grindavíkur næsta sunnudag þó ekki væri nema bara til að fylgjast með vinnslunni á Davíð Inga Bustion, 13 stig í kvöld og 9 fráköst og sem fyrr, ódrepandi barátta.
 
Hjá Þór í kvöld var Grétar Ingi Erlendsson með 27 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá var Darrin Govens með 21 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar og Tómas Heiðar lauk leik með 16 stig og 4 fráköst og hefði þurft að láta betur fyrir sér finna í síðari hálfleik.
 
 
Mynd og umfjöllun/ Jón Björn – [email protected]
  
Fréttir
- Auglýsing -