spot_img
HomeFréttirBlóðugt tap Tindastóls gegn Njarðvík í kvöld

Blóðugt tap Tindastóls gegn Njarðvík í kvöld

Íslandsmeistarar Tindastóls tóku á  móti Njarðvíkingum í Subway deild karla í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar hafa verið að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni eftir erfitt tímabil en gestirnir frá Njarðvík hafa verið í toppbaráttunni.

Upphafsmínútur leiksins gáfu tóninn fyrir það sem koma skyldi, stál í stál og menn áttu erfitt með að finna leið að körfunni. Heimamenn urðu fyrir áfalli strax í byrjun leiks þegar Arnar Björnsson þurfti að yfirgefa völlinn alblóðugur eftir rétt rúma mínútu. Geks kom inn fyrir hann og setti fyrstu stig leiksins með þrist en gestirnir svöruðu með þremur slíkum og Njarðvík leiddi 5-9 eftir 3 mínútur. Þeir voru þó ekki að stinga af og leikurinn hélst í járnum, staðan 18-16 fyrir Tindastól að loknum fyrsta leikhluta.

Sama baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta þó gestirnir væri alltaf hænufeti á undan. Lautier tryggði þeim forystu í hálfleik með góðum þrist 30-31. Arnar hafði farið á sjúkrahús til að láta gera að sárum sínum og kom aftur myndarlega vafinn um höfuðið en greinilega ekki í fullu formi.

Seinni hálfleikurinn bauð upp á svipaða baráttu en áhorfendum í Síkinu þótti heldur halla á sína menn í dómgæslunni enda fengu gestirnir einungis 3 villur dæmdar á sig í fyrri hálfleik. Gestirnir héldu þó áfram að vera á undan og Þorvaldur var að komast heldur auðveldlega að körfunni. Chaz kom gestunum í 6 stiga forystu þegar 3 mínútur voru til loka fjórðungsins en heimamenn náðu að jafna, staðan 51-51 fyrir lokaátökin.

Í fjórða fjórðung var áfram stál í stál en þegar 4 mínútur voru eftir kom Drungilas Stólum 5 stigum yfir með þrist. Njarðvíkingar sýndu styrk og reynslu í sókninni þar sem Chaz hljóp í kringum skrínin hjá Milka og náði yfirleitt að losa boltann á opinn mann, oft undir körfunni eða fór sjálfur og setti sniðskot sem kom Njarðvík stigi yfir 66-67. Lautier-Ogunleye kom stöðunni í 66-69 þega 56 sekúndur voru eftir leiks, Keyshawn svaraði og minnkaði í eitt stig þegar 44 sekúndur voru eftir og það reyndist lokakarfa leiksins þó bæði lið hefðu fengið sénsa til að klára leikinn. Milka braut á Callum Lawson þegar 6 sekúndur voru eftir þegar boltinn var víðsfjarri og þar vildu margir fá óíþróttamannslega villu. Dómararnir skoðuðu atvikið og dæmdu að lokum venjulega villu. Tindastóll náði 2 skotum en þau geiguðu bæði og sterkur sigur Njarðvíkinga staðreynd.

Tölfræði leiksins

Myndasafn ( Hjalti Árna )

Myndasafn ( Sigurður Pálsson )

Skyttur Tindastóls áttu erfitt uppdráttar í leiknum, Arnar var 0-5 í þristum og Geks var 3-11. Drungilas leiddi stigaskorið með 21 stig og 10 fráköst en aðrir voru daprir. Keyshawn Woods fór í gang í síðasta fjórðung en það dugði ekki til. 3ja stiga hittni Tindastóls var við frostmark, 10 skot af 40 skiluðu sér niður

Hjá Njarðvík dreifðist stigaskorið nokkuð jafnt, og hittni var töluvert betri en hjá Tindastól. Magic og Veigar áttu ágætis innkomur. Lauter-Ogunleye endaði stigahæstur með 15 stig.

Viðtöl:

Benni þjálfari Njarðvíkur
Svavar aðstoðarþjálfari Tindastóls

Umfjöllun / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -