Blikar komu stemmdir í Hólminn í kvöld og byrjuðu á að spila mjög vel og halda Snæfellssóknum niðri. Einnig voru Snæfellingar að spila lélega vörn í upphafi og voru alltaf skrefinu á eftir. Breiðablik hljóp svo sem ekkert langt í burt en komust í 10-16 þangað til Snæfell vöknuðu, jöfnuðu 16-16 og komust svo í 23-18 áður en Hrafn tók leikhlé fyrir Blika. Snæfell hafði svo 26-23 forystu eftir fyrsta hluta þar sem Hlynur leiddi sína menn með 12 stig og Burton fann hann vel undir körfunni.
Lítið var um skor í upphafi annars hluta og var Snæfell eingöngu búið að skora 3 stig þegar 3 mín voru búnar og Blikar ekkert. Jón Ólafur bætti fyrir skorið Snæfellsmegin með þrist um á mínútunni 6:50. Daníel Guðmund setti 1 stig af vítalínunni á 5 mínútu fyrir Breiðablik og komust þeir þá loks á blað. Boltinn fór að finna sig í netið betur síðustu mínútur annars hluta eftir að mistök á báða bóga voru allmörg í sóknum liðanna framan af. Snæfell leiddi leikinn í hálfleik 52-42.
Hjá Snæfelli var Hlynur þeirra alla fremsti maður með 17 stig og 11 fráköst. Sigurður 12 stig og Jón Ólafur 8 stig. Hjá Breiðablik var Jonathan Scmidt með 11 stig og Ágúst Angantýrsson 10 stig.
Snæfell byrjuðu allveg villtir og skelltu 13 stigum á Blika strax í upphafi og spiluðu hörkuvörn þar sem Blikar áttt engin svör og Hrafn tók leikhlé fyrir Kópavogsbúa. Snæfellingar voru hreinlega númeri of stórir fyrir Breiðablik þegar Hólmarar voru komnir í 32 stiga mun 85-53 og 33-11 í hlutanum þriðja. Snæfell leiddi 85-57 fyrir lokahlutann.
Snæfell hætti ekki að spila hörkuvörn í fjórða hluta og var alveg sama hver kom inná. Ekki skemmdi svo fyrir að menn voru heitir í sóknum líka. Blikar héldu áfram baráttunni þrátt fyrir 40 stiga mun 105-65 um miðjann hlutann og munaði þar um Jonathan Scmidt sem var að draga vagninn. Jeremy Caldwell fór að geta athafnað sig fyrst í leiknum eftir að Hlynur Bæringsson hvíldi í fjórða hluta. Raunin varð úr þessum leik 109-74 stórsigur heimamanna í Snæfelli sem voru léttir og hressir.
Hjá Snæfelli var Hlynur Bærings yfirburðamaður með 21 stig og 18 fráköst ásamt því að stela 5 boltum. Næstur honum var Sigurður Þorvalds með 22 stig og svo Sean Burton með 14 stig og 12 stoðsendingar. Emil og Jón Ólafur voru með 13 stig hvor. Hjá Breiðablik var Jonathan Scmidt með 19 stig og 7 stoðs. Daníel Guðmunds og Jeremy Caldwell með 13 stig hvor. Ágúst Angantýrsson með 12 stig og 7 fráköst.
Texti: Símon B. Hjaltalín.



