spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaBlikar lögðu KR í DHL Höllinni - Fall blasir við Vesturbæjarfélaginu

Blikar lögðu KR í DHL Höllinni – Fall blasir við Vesturbæjarfélaginu

Breiðablik lagði KR í dag í 19. umferð Dominos deildar kvenna, 65-76. Eftir leikinn er KR í 8. sæti deildarinnar með 4 stig á meðan að Breiðablik er í 6. sætinu með 12 stig.

Gangur leiks

Gestirnir úr Kópavogi voru skrefinu á undan í upphafi leiks. Leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta, 19-23. Í öðrum leikhlutanum helst leikurinn svo nokkuð jafn. Þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn aðeins sex stig, 29-35.

Heimakonur koma svo sterkar inn í seinni hálfleikinn og ná næstum alveg að rétta sinn hlut í þriðja leikhlutanum, en staðan fyrir þann fjórða var 51-52. Í honum tekur Breiðablik svo öll völd á vellinum, vinna leikhlutann með 10 stigum og sigla því að lokum nokkuð öruggum 11 stiga sigri í höfn, 65-76.

Kjarninn

KR tapaði virkilega mikilvægum leik í síðustu umferð fyrir Snæfell. Með sigri þar hefðu þær farið langt með að tryggja sæti sitt í deildinni, en allt kom fyrir ekki. Þær hefðu mögulega veitt sér líflínu ef þær hefðu náð að stela þessum í dag, en þeir tveir leikir sem þær eiga eftir nú eru báðir gegn liðum sem eru í efsta hluta töflunnar, Fjölni og Haukum. Nánast útilokað er að þær vinni þá báða og haldi sér uppi úr þessu. Blikar aftur á móti eru fastar á milli í deildinni, geta ekki fallið, geta ekki komist í úrslitakeppni. Samt sem áður ná þær að finna kraftinn til að vinna Keflavík í síðustu umferð og þennan leik gegn fallbaráttuliði KR. Það er virkilega vel gert og spennandi verður að sjá hvað þær gera í síðustu tveimur umferðunum gegn Skallagrím og Snæfell.

Atkvæðamestar

Isabella Ósk Sigurðardóttir var atkvæðamest í lið Blika í dag með 22 stig og 14 fráköst. Fyrir heimakonur í KR var það Taryn McCutcheon sem dró vagninn með 8 stigum, 11 fráköstum, 5 stoðsendingum og 4 stolnum boltum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 5. maí. Breiðablik fær Skallagrím í heimsókn í Smárann á meðan að KR mæta nýliðum Fjölnis í Dalhúsum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -