spot_img
HomeFréttirBlikar komnir í úrslitakeppnina

Blikar komnir í úrslitakeppnina

 Í gær sýndu mennirnir í Breiðablik loks sitt rétta andlit þegar þeir skelltu Þór Akureyri í Smáranum 106-73 í seinasta deildarleik beggja liða í ár.
 
Leikurinn byrjaði strax heimamönnum í vil með yfirburðum Blika í fyrsta leikhluta á bakinu á nokkrum leikmönnum; Björn Kristjáns setti þrjá þrista og eitt sniðskot, Jerry Hollis náði í auðveld 7 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson, réttnefndur Steini og stundum “Grjótið”, skilaði 17 stigum í fyrsta leikhlutanum! Jarrell Crayton, Kani þeirra Þórsara, skoraði ekkert í fyrsta leikhluta, en Breiðablik spilaði góða vörn á hann allann leikinn sem skilaði sér í að hann skoraði einugis 16 stig í öllum leiknum, það minnsta sem hann skorar á þessu leiktímabili þegar hann spilar fleiri en 30 mínútur. Staðan eftir 10 mínútur: 38-20.
 
Þórsarar komu aðeins einbeittari inn í annan leikhlutann og komust næst Blikum í miðjum leikhlutanum eftir 12-2 áhlaup. Jarrell fór aðeins að skora og Ólafur Aron virtist allt of fljótur fyrir hvítklæddu bakverði Blikanna og átti mörg auðveld sniðskot eftir að hafa komist fram hjá manninum sínum á fyrsta skrefi. Kópavogspiltarnir hristu þó af sér slenið og kláruðu leikhlutann vel. Þegar liðin héldu inn í klefa í hálfleik var staðan 59-42 og Þórsarar höfðu unnið leikhlutann með einu stigi (21-22).
 
Í þriðja leikhluta fór einn af aðfluttu Blikum okkar frá Sauðárkróki, Pálmi Geir Jónsson, á kostum. Pálmi var að setja þrista og gefa stoðsendingar hægri vinstri og hefur ekki átt svona gott framlag á öllu tímabilinu. Hann hefur átt marga góða leiki á tímabilinu en hefur augljóslega geymt það besta fyrir mikilvægasta leikinn. Hann lauk leik með 16 stig, 8 fráköst, 6 stoðsendingar og með þrjá af fjórum í þristum. Frábær leikur hjá kappanum. Jarrell var sá eini sem gat skorað fyrir Þór fyrstu 8 mínútur þriðja leikhlutans en Ólafur kom sterkur inn á seinustu mínútunum til að taka smá byrði af Kananum. Þeir skoruðu 8 stig hvor. Staðan fyrir lokaleikhlutann: 85-58.
 
Blikar slökuðu ekki á bensíngjöfinni í fjórða og þvert á móti héldu þeir áfram að spila frábæran bolta. Allir 12 leikmenn Breiðabliks fengu mínutur í leiknum og skoruðu allir nema einn (sem reyndar barðist mest af öllum inn á vellinum). Efnilegir ungir Blikar fengu að spreyta sig og sýndu að körfuboltinn í Kópavoginum er í uppsveiflu og megum við eiga von á mörgum góðum leikmönnum á næstu árum. Lokastaða var eins og áður sagði 106-73, heimamönnum í vil.
 
Þá liggur fyrir að Breiðablik er í 5. sæti í deildinni og mun mæta Fjölni í 4-liða úrslitum 1. deildar. Þór Akureyri endaði í 3. sæti deildarinnar og mun taka á móti Hetti í 4-liða úrslitum. Hver veit nema Breiðablik og Þór Ak. mætist aftur í úrslitunum? Það kemur bara í ljós.
 
Fyrir áhugasama var Blix TV að víðvarpa leiknum og upptöku af honum með lýsingu tveggja Breiðabliks-legenda, Jónasi “Jesú” Ólasyni og Trausta “T-Bag” Jóhannssyni, má finna á eftirfarandi vefslóð: http://new.livestream.com/accounts/1946688/blikarvsthor
 
Breiðablik  Þorsteinn Gunnlaugsson 27 stig, Jerry Lewis Hollis 21 stig/6 stoðsendingar/3 varin skot, Pálmi Geir Jónsson 16 stig/8 fráköst/6 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 16 stig/3 stoðsendingar, Egill Vignisson 6 stig, Halldór Halldórsson 5 stig/3 stoðsendingar, Snorri Vignisson 5 stig, Ægir Hreinn Bjarnason 3 stig, Daði Berg Grétarsson 3 stig, Þröstur Kristinsson 2 stig, Brynjar Karl Ævarsson 2 stig, Hákon Bjarnason 0 stig.
 
Þór Ak:  Ólafur Aron Ingvason 22 stig/4 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Jarrell Crayton 16/12 fráköst, Elías Kristjánsson 12 stig, Sindri Davíðsson 7 stig, Björn B. Benediktsson 4 stig, Sveinbjörn Skúlason 4 stig, Einar Ómar Eyjólfsson 3 stig, Arnór Jónsson 3 stig, Sveinn Blöndal 2 stig, Páll Hólm Sigurðsson 0 stig, Reinis Bigacs 0 stig, Bjarki Ármann Oddsson 0 stig.
 
Texti: Helgi Hrafn.
 
Fréttir
- Auglýsing -