spot_img
HomeFréttirBjössi bjargvættur í oddaleik ársins!

Bjössi bjargvættur í oddaleik ársins!

Íslandsmeistarar KR eru komnir í úrslit eftir ævintýralegan oddaleik gegn Njarðvíkingum. Lokatölur 102-94 eftir tvíframlengdan leik sem vitnað verður í um ókomin ár. Vart þurr þráður á þeim sem lögðu leið sína í DHL-Höllina í kvöld. Rússíbaninn fékk óvæntan vagnstjóra þegar Björn Kristjánsson steig upp þegar allt var komið í brotajárn og fæddist þar ný hetja í Vesturbænum. Þetta er kvöldið sem flestir hefðu búist við að yrði um aldur og ævi merkt Stefan Bonneau en Björn Kristjánsson stal sviðsljósinu á lokametrunum. Bjössi bjargvættur mögulega eitthvað sem gæti tekið sér bólfestu. 

Það verða því KR og Tindastóll sem leika munu til úrslita en Njarðvíkingar fá mikið lof fyrir sína frammistöðu og hefðu hæglega getað sett KR í sumarfrí í kvöld. Stefan Bonneau hefur því leikið sinn síðasta leik á Íslandi, amk. í bili en þessi stórkostlegi leikmaður gerði 52 stig, tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í liði Njarðvíkinga í kvöld. Michael Craion er nú ekki síðri enda kappinn með 36 stig, 23 fráköst og 6 stoðsendingar í leiknum og í fyrsta sinn sem leikmaður á Íslandi heldur Craion nú inn í úrslitaeinvígið. 

Staðan var eingungis 1-0 eftir tveggja mínútna leik, gæsahúð í mönnum skiljanlega frammi fyrir þéttsetinni DHL-Höllinni í lúxus-stemmningu. Vörn KR-inga var til í tuskið og með þremur stolnum boltum í röð refsuðu heimamenn og byrjuðu leikinn 8-0 og þá kallaði Friðrik Ingi sína menn í leikhlé. Sterk byrjun deildarmeistarnnna á meðan gestirnir virtust ekki alveg slá taktinn í upphafi leiks. 

Ef Njarðvíkingar virtust ekki vera að slá taktinn fyrstu mínúturnar hvað voru þeir þá að gera restina af leikhlutanum? Craion lék lausum hala, KR-vörnin var þéttari en kraftlyftingamaður í stálgallanum og mulningsvélin gerði sitt. Fyrst 18-2 og svo lauk leikhlutanum í stöðunni 24-5 þar sem Njarðvíkingar voru einfaldlega mannhöndlaðir og stór spurning hvort ljóna og sebrahesta-tístið hafi verið góð hugmynd hjá aðstoðarþjálfara Njarðvíkinga. Carion með 11 stig hjá KR eftir fyrsta leikhluta en Hjörtur Hrafn með fjögur í liði Njarðvíkinga sem vilja vafalítið gleyma þessum leikhluta sem allra fyrst. Að sama skapi röndóttir í fantaformi.

Í öðrum leikhluta ákváðu Njarðvíkingar að gyrða sig, Logi skellti í þrist 26-8 og var svo aftur á ferðinni með eina af flottari stoðsendingum ársins þegar hann grýtti tuðrunni á Bonneau í alley-up, svaðaleg háloftatilþrif og einhver þau flottustu þetta tímabilið. KR-ingar hleyptu Njarðvík ekki of nærri, Pavel tók sitt tólfta frákast, arkaði yfir og gerði sín fyrstu stig, bombaði niður þrist og breytti stöðunni í 41-26. Nú það er ekki oddaleikur í DHL-höllinni nema Brynjar Þór sé í miðjum darraðardansi og fékk hann tæknivíti dæmt á sig eftir viðskipti sín við Bonneau og Njarðvíkingar gerðu lokastig leikhlutans, staðan 41-29 í hálfleik. 

Rússíbanareið þessi fyrri hálfleikur, fyrsti leikhluti 24-5 KR í vil og margir trúðu vart sínum eigin augum, að sjálfur oddaleikur ársins til þessa væri hreinlega búinn. Grænir unnu annan leikhluta 17-24 og náðu að brúa bilið, munurinn þá aðeins 12 stig í hálfleik. Craion í skepnuham með 16 stig og 7 fráköst í hálfleik og Pavel með 12 fráköst, 3 stig og 4 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Bonneau með 10 stig og 3 fráköst en öll þessi 10 stig komu í öðrum leikhluta og Logi Gunnarsson var með 8 stig. 

Skotnýting liðanna í hálfleik:
KR: Tveggja 50% – þriggja 21,1% og víti 45,5%
Njarðvík: Tveggja 38,9% – þriggja 23,1% og víti 66,7%

Bonneau-æðið tók öll völd í síðari hálfleik, maðurinn gerði 10 stig í þeim fyrri en lýkur leiknum með 52 stig svo þið getið rétt ímyndað ykkur hvað gekk á hérna. Frákastabaráttan var enn í einstefnueigu KR-inga en dropar gestanna holuðu stein heimamanna með hverri mínútunni í þriðja leikhluta. Í tvígang braust Bonneau í gegn og fékk villu og körfu að auki og skyndilega var munurinn kominn niður í sjö stig, 56-49. Njarðvíkingar voru hvergi nærri hættir og Bonneau jafnaði leikinn 58-58 en Björn Kristjánsson, sem átti eftir að koma vel við sögu síðar í leiknum, lokaði leikhlutanum með þrist í vinstra horninu og KR leiddi 61-58 eftir þriðja. 

Í fjórða hugsuðu eflaust margir KR-ingar, „fjandinn…karma er að ná okkur, Bonneau er að Marcus-Walker-a okkur.“ Bonneau kom Njarðvík 69-73 og hér kvaddi Helgi Magnússon leikinn er hann fékk sína fimmtu villu. Þegar liðlega tvær mínútur lifðu leiks voru Njarðvíkingar komnir með sjö stiga forystu, 74-81. Ljósavél KR-inga hrökk þá aftur í gang, Craion með hraðaupphlaupstroðslu þegar rúm mínúta var eftir og minnkaði muninn í 78-81. Stemmning færðist á ný yfir heimamenn. 

Þegar 17 sekúndur voru eftir kom Bonneau Njarðvíkingum í 80-83. Stálhreðjarnar á Pavel tóku næsta skot KR-inga og þær skiluðu niður þrist 83-83 þegar 9 sekúndur lifðu leiks. Næsta sókn Njarðvíkinga fór næstum því út um þúfur en Bonneau fékk þó lokaskotið, það geigaði svo framlengja varð í stöðunni 83-83. 

Menn áttu bágt í fyrstu framlengingunni, hún fór 4-4 og í þessari framlengingu sáum við m.a. undir hælana á Pavel Ermolinskij þegar hann fékk sína fimmtu villu og þeir Björn Kristjánsson og Brynjar Þór tóku við keflinu að bera boltann upp völlinn. Með tíu sekúndur eftir og staðan 87-87 kastar Brynjar Þór boltanum í spjaldið og gestunum dæmdur boltinn. Vitaskuld fór boltinn í hendur Bonneau og úr varð þriggja stiga skot hjá kappanum þegar tvö stig hefðu dugað. Þristurinn geigaði og framlengja varð að nýju. 

Önnur framlenging byrjaði með látum, Njarðvíkingar komust í 92-93 með körfu frá Loga Gunnarssyni en Björn Kristjánsson tók sjálfan sig inn í umræðu lykilmannanna þegar hann skellti niður þrist og kom KR í 95-93. Ingvaldur Magni sem kom af bekknum í villuvandræðum þeirra KR-inga tók svo rándýrt sóknarfrákast og brotið var á honum og svellkaldur lögregluþjónninn kom KR í 97-93 á vítalínunni. Snöggtum síðar þræddi Björn nálina með glæsilegri stoðsendingu á Craion sem ísaði leikinn 99-93 þegar 40 sekúndur lifðu leiks. Lokatölur 102-94. 

Í fyrsta lagi voru Craion og Pavel magnaðir, tölurnar þeirra í kvöld voru ekkert slor eins og þið sjáið. Björn Kristjánsson lauk leik með 10 stig og 4 fráköst en sá reyndist heldur betur þrautgóður á raunastund. Brynjar Þór átti líka fína spretti en KR saknaði sterkara framlags frá Helga Magnússyni. Björn fæddist hér í kvöld sem glósa í bókum annarra þjálfara, vissara að hafa hemil á þessum þegar allt er komið í járn. 

Njarðvíkurmegin var Bonneau frábær með 52 stig og 42 þeirra komu í síðari hálfleik og þessi leikstjórnandi sem nær ekki 180 sentimetrum reif líka í sig 12 fráköst. Fyrir þá sem hafa leyft sér að kalla Njarðvíkinga eins manns lið er vert að huga að því að það fer enginn í oddaleik gegn KR einn síns liðs. Logi Gunnarsson hefur verið frábær í þessari úrslitakeppni og varnarleikur þessa eins af reyndustu leikmönnum þjóðarinnar hefur verið Njarðvíkingum gríðarlega mikilvægur. Logi skyldi allt sem hann átti eftir þetta tímabilið á fjölum DHL-Hallarinnar, sannur leiðtogi þeirra Njarðvíkinga. 

Jæja, segjum þetta gott, maraþonleik lokið í DHL-Höllinni og báðum liðum heimilt að hneigja sig eftir þessa frammistöðu. Það gengur enginn skömmustulegur frá svona viðburði! 

Tölfræði leiksins
Myndasafn – Bára Dröfn

Umfjöllun/ [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -