Hattarmenn þurfa að finna sér þjálfara fyrir komandi átök í 1. deild karla á næstu leiktíð en Björn Einarsson mun ekki stýra liðinu á næsta tímabili. Þetta staðfesti Björn í samtali við Karfan.is.
Björn tók við Hetti á Egilsstöðum fyrir síðasta tímabil og stýrði liðinu inn í 6. sætið og var Höttur því aðeins einu sæti frá sæti í úrslitakeppni 1. deildar. Liðið vann 7 leiki undir stjórn Bjarnar og tapaði 11.
,,Það var fínt að vera á Egilsstöðum og svo gekk mjög vel með yngri flokkana og var nokkur iðkendafjölgun,“ sagði Björn sem leitar nú á önnur mið eftir nýrri áskorun en áður en hann tók við Hetti var hann spilandi þjálfari hjá ÍBV ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka.
Ljósmynd/ Höttur Egilsstöðum: Björn við stjórnartaumana með yngri flokkum Hattar.



