Björn Ægir Hjörleifsson hefur ákveðið að stíga til hiðar sem formaður Körfuknattleiksdeildar Þórs í Þorlákshöfn. Í yfirlýsingu frá Birni segist hann vera í krefjandi starfi og að hann hafi upprunalega stefnt að því að hætta formennskunni að lokinni síðustu leiktíð.
Hér er brot úr yfirlýsingu Björns en lesa má hana í heild sinni á heimasíðu Þórs:
Sl. miðvikudag tilkynnti ég samstarfmönnum mínum í stjórn kkd.Þórs að ég hefði ákveðið að segja af mér formennsku nú þegar. Ég ætlaði að hætta eftir sl. tímabil en féllst á að taka eitt tímabil í viðbót. Nú liggur fyrir að taka þarf stórar ákvaðanir er varða næstu mánuði í starfi klúbbsins og því taldi ég eðlilegt að stíga til hliðar strax svo að þeir sem ætla að halda áfram að stýra starfinu gætu gert það án minna afskipta. Ég hef gegnt formennsku nú samfellt í 11 ár, fyrst hjá Umf. Drangi og síðan hjá Þór. Í þetta fer gífurlegur tími og mikil orka. Ég er í mjög krefjandi starfi með löngum vinnudegi sem krefst allrar minnar orku og einbeitingar. Ég hef fundið það á síðustu mánuðum að stjórna líka körfuknattleiksdeild gengur einfaldlega ekki upp. Ég er þannig gerður að þegar að ég finn að ástríðan fyrir áhugamálinu fer dvínandi og ég get ekki gert hlutina eins vel og ég vil, þá er betra að segja stopp.
Mynd/ Björn Ægir Hjörleifsson stígur til hliðar úr formannsstóli KKD Þórs



