Björgvin Hafþór Ríkharðsson verður frá næstu mánuði hjá ÍR en í ljós er komið að hann er með slitið aftara krossband í fæti. „Það er óvíst hvort ég þurfi að fara í aðgerð,“ sagði Björgvin við Karfan.is í morgun en meiðslin hlaut hann í íþróttatíma við Háskólann í Reykjavík þar sem Björgvin stundar íþróttafræði.
„Eins og staðan er vona ég að þetta verði ekki mikið meira en þrír mánuðir, ég get gengið og það eru stífar æfingar framundan við að styrkja löppina sama hvort ég fari í aðgerð eða ekki,“ sagði Björgvin sem fylgist með ÍR af tréverkinu næstu mánuði en ÍR hefur tapað fyrstu þremur deildarleikjunum sínum í Domino´s deildinni.
„Við þurfum að rífa okkur í gang og þó þetta setji smá strik í reikninginn þá kemur alltaf maður í manns stað,“ sagði Björgvin en þessi leiktíð hefur ekki gengið sem skyldi hjá kappanum. „Fyrir fyrsta leikinn snéri ég mig á fæti, spilaði í öðrum leiknum á móti KR og fyrir þriðja leikinn gegn Njarðvík sleit ég krossbandið.“
Hvort Björgvin nái fleiri leikjum þetta tímabilið á eftir að koma í ljós en víst er að hann verður ekki meira með fyrir áramót hið minnsta.



