Körfuknattleiksdómarinn Björgvin Rúnarsson hefur söðlað um og mun dæma fyrir Breiðablik á næstu leiktíð. Gengur hann þar í næsta bæjarfélag ef svo má að orði komast þar sem hann hefur undanfarið dæmt fyrir Stjörnuna í Garðabæ.
Á heimasíðu Blika segir:
Björgvin er annar af tveimur alþjóðlegum dómurum sem Ísland á um þessar mundir og hefur dæmt frá árinu 1992. Tveimur árum síðar blés hann í flautuna í fyrsta sinn í úrvalsdeildinni og ári síðar hlaut hann alþjóðleg réttindi sem dómari.
Björgvin hefur dæmt fyrir Stjörnuna um hríð en lék allan sinn feril sem leikmaður með Valsmönnum. Mörg verkefni bíða hans á dómarasviðinu næstu vikur og verður hann t.a.m. klár með flautuna á Evrópumóti 16 ára c-liða kvenna í Andorra sem fram fer í lok júlí.



