spot_img
HomeFréttirBjarni: Þetta eru gríðarleg vonbrigði

Bjarni: Þetta eru gríðarleg vonbrigði

Karfan.is heyrði í Bjarna Magnússyni þjálfara Haukakvenna eftir að í ljós kom að Guðrún Ósk Ámundadóttir er með slitið krossband og er annar leikmaður Hauka sem heltist úr lestinni sökum krossbandsslita.
 
Bjarni sagði að þetta væru gríðarleg vonbrigði og ekki minna áfall en að missa Írisi Sverrisdóttur út. „Ég get ekki neitað því að þetta eru gríðarleg vonbrigði. Guðrún er fyrirliði liðsins og hefur verið að skila því hlutverki afar vel. Það er alveg með ólíkindum að missa tvo byrjunarliðsmenn í sama leiknum með slitið krossband,“ sagði Bjarni og tónninn var þungu. Hann á ekki von á því að Guðrún verði eitthvað fyrr tilbúin en Íris þrátt fyrir að meiðsli hennar séu örlítið vægari.
 
„Ég held að engin hafi átt von á því að Guðrún væri með slitið krossband eins og kom í ljós núna í morgun en án þess að fara í einhvern meting þá eru meiðsli Írisar enn verri þar sem að hún er líka með slitið liðband. Þrátt fyrir það þá fara þær í aðgerð á svipuðum tíma og ég á því ekki von á að Guðrún verði komin eitthvað fyrr í gang.“
 
„Við skulum annars bara sjá til en það sem skiptir mestu máli núna er að aðgerðirnar heppnist vel sem og endurhæfingin. Þær eiga bara að taka sér þann tíma sem að þær þurfa þannig að þær nái að jafna sig vel á þessum meiðslum,“ sagði Bjarni.
 
Bjarni var ekki búinn að gera ráð fyrir Guðrúnu í fyrsta leiknum gegn Njarðvík og þarf því ekki að fara í allsherjar naflaskoðun yfir áætlanir sínar fyrir viðureignina gegn grænum.
 
„Nei við vorum nú byrjaðir að undirbúa fyrsta leikinn án Guðrúnar þannig að við þurfum ekki að fara í neinar breytingar með hvernig við leggjum þann leik upp. Ég var nú samt að vona að hún gæti komið inn í annan eða þriðja leik en svo verður ekki.“
 
Bjarni sagði að Haukaliðið hafi klárað leik tvö gegn Keflavík og spilað svo alveg án Guðrúnar og Írisar í þriðja leiknum þannig að hinar stelpurnar í liðinu hafa eitthvað til brunns að bera.
 
„Þetta er allt saman eðlilega hundfúlt en þetta er staðan og ekkert sem við getum gert til að breyta henni. Nú þurfa þeir leikmenn sem að eru í standi til að spila að þjappa sig enn betur saman og saman þurfum við að finna leiðir til að vinna bikarmeistara Njarðvíkur.“
 
„Það búast flestir við sigri Njarðvíkinga eftir þessi áföll hjá okkur sem og að þær endurðu í 2. sæti og er því með heimaleikjaréttinn en Haukar munu gefa sig 100 prósent í þetta verkefni og við skulum sjá hvort að það skili okkur titli eða ekki,“ sagði Bjarni að lokum.
 
Fyrsti leikur Hauka og Njarðvíkur er núna á miðvikudaginn og fer hann fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

[email protected]

 
Fréttir
- Auglýsing -