spot_img
HomeSubway deildinSubway deild kvennaBjarni: Spennandi deild með mörgum góðum liðum

Bjarni: Spennandi deild með mörgum góðum liðum

Við höldum áfram að nudda úr þjálfurum Subwaydeildar kvenna nokkur orð um undirbúning fyrir komandi keppnistímabili og Bjarni Magnússon þjálfari Hauka var næstur á dagskránni. Bjarni svo sannarlega marga fjöruna sopið í boltanum bæði sem leikmaður og síðustu ár sem þjálfari Hauka.

“Misstum tvo leikmenn óvænt”

“Hópurinn hjá okkur er loksins orðinn fullmótaður. Misstum óvænt nokkra leikmenn í byrjun undirbúningstímabils og þar af lykilleikmenn frá síðasta tímabili. Því eru miklar breytingar á hópnum milli ára og 6 leikmenn úr 12 manna hópi farnar. En við höfum fengið nokkra sterka leikmenn inn í staðinn. Þannig að við mætum til leiks með góðan hóp.” sagði Bjarni um þann leikmanna hóp sem hann hefur úr að moða. Þeir leikmenn sem Bjarni talar um að hafa misst út á undirbúningstímabili eru Jana Falsdóttir (Fór í Njarðvík) og Eva Margrét Kristjánsdóttir (Enn í Ástralíu)

Væntingar eru yfirleitt háar í körfuboltanum hjá Haukum og liðið verið við þröskuldinn á þeim stóra síðustu ár en Íslandsmeistaratitillinn hefur ekki endað að Ásvöllum síðan 2018. “Ég veit svo sem ekki hvaða væntingar eru gerðar á Hauka og við sem lið ekki búnar að setja okkur nein markmið í sjálfu sér. En við setjum markið ávallt hátt og viljum vera í þeirri stöðu að geta keppt um alla titla sem eru í boði. En með með breyttum hópi þá erum við með öðruvísi samansett lið og mun því leikstíll okkar breytast. Erum meðvituð um að það mun taka tíma fyrir okkur og þolinmæði að aðlagast því og slípa liðið saman. En við viljum klárlega vera í topp 5 þegar deildinni verður skipt upp.”

Síðustu ár hafa það oftast verið einhver 4 lið nokkuð örugg með þessi efstu sæti sem gefa úrslitakeppnisrétt en í ár stefnir í að fleiri komi til með að blanda sér í þann pott og deildin lofar góðu.

“Það verður klárlega krefjandi verkefni því mörg lið mæta sterkari til leiks þetta árið samanborið við síðastliðin tímabil. Þannig að ég sé fram á mjög spennandi deild með mörgum góðum liðum sem vilja vinna titla í vetur. Svo að við í Haukum erum spennt fyrir vetrinum og hlökkum til að fá vini okkar úr Hólminum í heimsókn í Ólafssal þann 26.september nk.” sagði Bjarni að lokum.

Fréttir
- Auglýsing -