spot_img
HomeFréttirBjarni Guðmann um þróun sína sem leikmanns í háskólaboltanum "Mætti hingað fyrst...

Bjarni Guðmann um þróun sína sem leikmanns í háskólaboltanum “Mætti hingað fyrst sem duglegur íþróttamaður en hef hægt og rólega breyst í körfuboltamann”

Borgfirðingurinn Bjarni Guðmann Jónsson hélt vestur um haf haustið 2019 til þess að ganga til liðs við Fort Hays State Tigers frá Kansas í bandaríska háskólaboltanum. Þar hefur hann leikið síðan, en næsta tímabil mun vera hans síðasta í Fort Hays.

Með Skallagrími í efstu deild 2018

Bjarni var tvítugur þegar hann fór út, en var þó með töluverða reynslu þar sem hann hafði leikið fyrir meistaraflokk Skallagríms í fyrstu og úrvalsdeild frá því hann var 15 ára gamall. Í 21 leik með Skallagrími í úrvalsdeildinni 2018-19 skilaði Bjarni 13 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik. Þá var Bjarni einnig á sínum tíma hluti af öllum yngri landsliðum Íslands, sem og lék hann sinn fyrsta a landsliðsleik 2021.

Í leik fyrir Ísland

Fort Hays State eru staðsettir í Hays í Kansas ríki Bandaríkjanna og Tigers leika í MIAA hluta 2. deildar háskólaboltans. Bjarni hefur leikið stórt hlutverk hjá liðinu öll fjögur tímabilin sem hann hefur spilað fyrir þá, en á þessu tímabili átti liðið góðu gengi að fagna, unnu 20 leiki og töpuðu 9. Bjarni byrjaði alla leiki tímabilsins og skilaði 9 stigum, 4 fráköstum og skaut 48% fyrir utan þriggja stiga línuna.

Karfan hafði samband við Bjarna og spurði hann út síðasta tímabil með Tigers, lífið í Hays, hvernig honum litist á boltann heima og hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil ganga hjá ykkur í Fort Hays State Tigers?

“Tímabilið gekk í heildina bara nokkuð vel. Enduðum í þriðja sæti í deildinni okkar alveg eins og árið áður og töpuðum í undanúrslitum í úrslitakeppninni. Enduðum árið með næst bestu vörnina í D2 deildinni, líka annað árið í röð. Það er auðvitað alltaf leiðinlegt þegar gengur svona vel að komast ekki lengra í úrslitakeppninni. En maður verður bara mótiveraður í að ná lengra.”

Hvernig gekk þér persónulega á tímabilinu, ertu sáttur?

“Ég er mjög sáttur með timabilið persónulega. Var valinn í varnalið ársins annað árið í röð og náði að bæta mig í öllum flokkum. Það sem ég var mest að fókusa á að bæta í ár var þriggja stiga skotið mitt sem gekk virkilega vel. Endaði tímabilið á því að skjóta 47% fyrir utan þriggja sem var besta nýtingin í deildinni og ein besta nýtingin í D2 deildinni. Heilt yfir gengið mjög vel.”

Hvernig er stemningin í Hays, Kansas?

“Stemningin er virkilega góð hér. Hays er lítill háskólabær og ekki mikið annað að gera fyrir fólk en að mæta á leiki. Þannig það þekkja mann allir og allt gert fyrir mann. Mætti nú segja að það sé ekki mjög ólíkt Borgarnesi, þar sem allir þekkjast og mikil stemning fyrir körfunni. – Munuring er þó að hér er aðstaða til að verða betri. Maður kemst í höllina eða einn af fjórum æfingasölum hvenær sem er dags. Og auðvitað má ekki gleyma að nefna að við fáum að meðaltali um 2500 áhorfendur á leiki hjá okkur sem er næst mesti áhorfendafjöldinn í allri D2 deildinni.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist heima?

“Ég er búinn að sjá nánast sama svarið hjá öllum öðrum sem svöruðu þessum spurningum og mitt er ekki mjög ósvipað. Einstaklingslega séð eru leikmenn betri en leikskilningur ekki eins góður. Varnalega séð er ekki eins mikil harka leyfð. Svo er nátturlega umgjörðin og utanumhald töluvert betra. Mikið meiri agi, æfingar um miðjan dag, fleiri þjálfarar til að aðstoða með hvað sem er, og svo má ekki gleyma sjúkraþjálfara sem er í fullri vinnu allan daginn að sjá um þig.”

Að hvaða leyti finnst þér þú vera þróast sem leikmaður þarna úti?

“Ég er búinn að bæta mig gríðarlega síðan ég kom hingað út. Ég mætti hingað fyrst sem duglegur íþróttamaður en hef hægt og rólega breyst í körfuboltamann. Varnalega hef ég aldrei átt í vandræðum þannig mest hef ég verið að vinna í sóknarleiknum mínum og hefur það gengið ljómandi vel.”

Þú fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast, hverjir heldur þú að séu líklegastir til að verða meistarar?

“Ég fylgist vandræðalega lítið með deildinni heima. En ég vona nú auðvitað alltaf að lið utan af landi taki þetta, t.d. Tindastóll eða Þór en Valur lítur heilt yfir best út.”

Svo eru þínir menn í Skallagrími til alls líklegir í fyrstu deildinni, telur þú að þeir eigi möguleika og erindi upp í Subway deildina?

“Ég hef fylgst töluvert með mínum mönnum, líklega vegna þess að liðið samanstendur einungis af Borgnesingum, fyrir utan tvo erlenda leikmenn. Þeir eiga mjög góðan séns á því að komast upp. Þeir hafa átt í erfiðleikum með Hamar í ár en það verður spennandi að fylgjast með þessu einvígi. Svo er það spurning hvort þeir eiga yfir höfuð erindi upp, ef þeir vinna þetta einvígi þá hljóta þeir nú að eiga eitthvað erindi en annars hef ég ekki hugmynd.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Ég verð eitt ár í viðbót hérna úti og svo getur hvað sem er gerst.”

Hver eru markmið þín fyrir næsta tímabil?

“Aðal markmiðið fyrir síðasta árið mitt er að komast D2 úrslitakeppnina sem við höfum verið asnalega nálægt síðustu tvö ár. Fyrir þá sem þekkja mig ekki kemur það þeim kannski á óvart að ég á það til að fá aðeins of margar villur í leik, en set mér það litla markmið að fækka þeim svo ég geti aðstoðað liðið mitt aðeins meira á næsta ári.”

Fréttir
- Auglýsing -