Fjórir leikmenn sem hafa drepið niður fæti í íslensku úrvalsdeildinni eru nú mættir stál í stál í undanúrslitum finnsku úrvalsdeildarinnar þar sem eigast við Nilan Bisons og Kauhajoki. Bisons tóku 1-0 forystu í undanúrslitum í gærkvöldi með 97-85 sigri.
Jeb Ivey leikur með Bisons og skoraði 13 stig í sigurleik liðsins í gær ásamt því að gefa 3 stoðsendingar. Í liði Kauhajoki leika þeir Giordan Watson, J´Nathan Bullock og Haminn Quaintance.
Bullock leiddi Kauhajoki með 25 stig og 4 fráköst í gær, Watson bætti við 11 stigum og 3 stoðsendingum og Quaintance var með 9 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.
Ivey varð Íslandsmeistari hérlendis með bæði Snæfell og Njarðvík og lék einnig með Fjölni. Watson hefur leikið með Grindavík og Njarðvík og varð meistari ásamt Bullock með Grindavík á síðasta tímabili og Quaintance varð landsþekktur fyrir almenn leiðindi í Borgarnesi, hæfileikaríkur leikmaður sem lenti upp á kant við atvinnuveitanda sinn hérlendis.
Mynd/ Jeb Ivey og Bisons eru komnir með 1-0 forystu í undanúrslitum í Finnlandi.