spot_img
HomeFréttirBirna: Núna langar mig að halda áfram í tíu ár til viðbótar

Birna: Núna langar mig að halda áfram í tíu ár til viðbótar

 
,,Við stálum leik eitt og vorum bara heppnar, leikur tvö var mjög erfiður inni í Njarðvík og við rétt mörðum hann en í kvöld sýndum við okkar rétta andlit og náðum að sýna getumuninn á liðunum,“ sagði Birna Valgarðsdóttir sem tók við Íslandsmeistaratitlinum fyrir hönd Keflavíkur í kvöld þegar liðið lagði Njarðvík 3-0 í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar kvenna.
,,Við lögðum upp með að leyfa erlendu leikmönnum Njarðvíkur að reyna að gera sinn hlut og stöðva svo hina leikmenn liðsins, ekki leyfa þeim að komast í gang og það svona eiginlega gekk upp. Við keyrðum líka soldið á þær og það þreytti þær svolítið,“ sagði Birna um leikskipulag Keflavíkur fyrir kvöldið en þessi titill kom ekki áfallalaust í hús hjá Keflavík, svona eins og við er kannski að búast á langri leiktíð.
 
,,Það var gífurlegt áfall að missa Jackie í meiðsli og ég hugsaði með mér hvað gerum við nú? Við fáum Lisu inn sem er ágætur leikmaður, hún skorar kannski ekki mikið en hún er dugleg, tók fráköst og stal boltum og það var það sem við þurftum,“ sagði Birna en er hún ekki járnkona sem á einhver 3-4 tímabil eftir í sér?
 
,,Við skulum koma okkur bara aðeins niður á jörðina og skoðum þetta bara í haust,“ sagði Birna kát í bragði. ,,Maður er kominn með fjölskyldu og þegar litli strákurinn minn segir ,,nei mamma ekki fara“ þegar maður er á leið á æfingu eða í leik þá spyr maður sig hvort maður eigi að halda áfram eða ekki. Núna eftir svona árangur þá langar manni helst bara til að halda áfram í tíu ár í viðbót.“
 
Fréttir
- Auglýsing -