13:58
{mosimage}
(Birna ætlar sér gullið á Smáþjóðaleikunum)
Reynsluboltinn Birna Valgarðsdóttir er komin af stað með íslenska kvennalandsliðinu að nýju eftir nokkurt hlé. Birna fer með landsliðinu til Kýpur í byrjun júní þar sem Smáþjóðaleikarnir fara fram. Birna var bjartsýn fyrir mótið og sagði íslenska liðið vel geta nælt sér í gullið.
,,Þetta er ekkert annað en baktería, þetta er bara svo gaman og ég er svo ung ennþá,“ sagði Birna kát í bragði en þessi 33 ára gamli leikmaður er einn leikreyndasti landsliðsmaðurinn í hópnum. Birna hefur verið fjarri góðu gamni með landsliðinu síðustu tvö ár, fyrst sökum barneigna og síðasta sumar fór hún í speglun á hné.
,,Ég ákvað að ná mér alveg heilli eftir speglunina og hnéið er búið að vera gott alveg síðan,“ sagði Birna sem fór mikinn með Keflavíkurliðinu á síðustu leiktíð og gerði 20,7 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 6,3 fráköst.
,,Það er heiður að vera valin í landsliðið og ekki á hverjum degi sem manni býðst að taka þátt í svona verkefnum. Ég tel að ég sé í sæmilegu formi en það vantar samt smá upp á hjá mér,“ sagði Birna en hvernig metur hún möguleika Íslands á Smáþjóðaleikunum?
,,Við eigum raunhæfa möguleika á því að taka gullið núna, ef ég man rétt þá lentum við í 2. sæti síðast svo við stefnum bara á gullið núna, ekki spurning,“ sagði Birna og vonaðist til þess að geta miðlað af reynslu sinni til yngri leikmanna í liðinu.



