Leikmaður Hauka Birkir Hrafn Eyþórsson hélt vestur um haf nú í sumar og tók þátt í æfingabúðum NBA akademíunnar, og var hann aðeins annar íslenski leikmaðurinn til þess að fá boð um að taka þátt.
Birkir Hrafn er að upplagi frá Selfossi, en gekk til liðs við Hauka fyrir síðasta tímabil eftir gott ár í fyrstu deildinni með Selfossi. Birkir átti flotta spretti með Haukum á síðasta tímabili og þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gamall sýndi hann það að hann átti heima í sterkri efstu deild.
Þá hefur Birkir einnig verið burðarrás í yngri landsliðum Íslands á síðustu árum, með undir 16 ára liðinu fyrst og svo með undir 18 ára liðinu í tvígang.
Karfan heyrði í Birki og spurði hann aðeins út í NBA búðirnar og hvernig hann sæi næstu skref fyrir sér.
Hvað kom til þú fórst til æfinga í NBA akademíunni?
,,Ég hef staðið mig vel undanfarin ár og hef bætt mig mikið. Þannig í byrjun sumars láta umboðsmennirnir mínir mig vita að tækifæri frá NBA sé til boðanna sem ég gæti ekki neitað, svo það var aldrei spurning um hvort ég myndi fara eða ekki”
Fyrir þá sem ekkert vita, hvernig búðir eru þetta?
,,Þetta er 1 heil vika sem NBA borgar alveg og sér um. fyrstu 2 dagarnir fara í að æfa og tengjast leikmönnunum sem þú ert með í liði og svo alveg frá degi 3 til lok er spiluð riðlakeppni þar sem bestu ungu leikmenn heims fá að keppa á móti hvort öðrum á sama stað fyrir framan alla helstu NCAA og NBA scouts”
Sérðu fyrir þér að fara eitthvað frekar út að spila, háskóla eða til Evrópu?
,,Ég er harðákveðinn að fara til Bandaríkjana og núna eftir að ég kem heim til Íslands fer ég í að velja hvaða skóla mér líst best á, svo er mitt helsta markmið að spila í sjálfri NBA deildinni og ég mun gera mitt allra besta á mínum ferli til þess að ná þeim draumi”
Hvers virði er svona reynsla fyrir ungan leikmann eins og þig?
,,Þessi reynsla er mér mjög mikils virði. Sjálfstraust og agi hefur verið mjög mikilvægur punktur þessa helgi og ég hef staðið mig vel á móti sterkustu andstæðingum heims sem gefur mér mikið sjálfstraust komandi inní næsta tímabil. Það að vera valinn til þess að spila á svona stóru móti og vera frá svona litlu landi er mér mjög kært og mun ég leggja jafnvel meiri vinnu á mig til þess að ná mínum markmiðum í lífinu sem eru ekkert lítil. Það er mikilvægt að stefna alltaf eins hátt og þú mögulega getur annars er engin tilgangur að vera gera það sem þú gerir, ef þú elskar hlutinn nægilega mikið mun þér takast það með mikilli vinnu”
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá veru Birkis í Bandaríkjunum








