spot_img
HomeFréttirBirkarmeistarar höfðu betur gegn Íslandsmeisturum í Breiðholtinu (Umfjöllun)

Birkarmeistarar höfðu betur gegn Íslandsmeisturum í Breiðholtinu (Umfjöllun)

00:12
{mosimage}

(Nate Brown lék vel í Seljaskóla í kvöld) 

Fráfarandi Bikarmeistarar ÍR tóku á móti Íslandsmeisturum KR í Seljaskóla í Iceland Express deildinni fyrr í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en heimamenn höfðu þó betur á lokakaflanum og unnu verðskuldaðan 5 stiga sigur í æsispennandi og skemmtilegum körfuboltaleik. Nate Brown átti stórleik í kvöld en hann var stigahæstur með 21 stig og var heilinn á bakvið mun fleiri stig en það.  Næstir á eftir honum voru Hreggviður Magnússon með 18 stig og Tahirou Sani með 11 stig. Hjá KR var Joshua Helm atkvæðamestur með 20 stig en næstir á eftir honum voru Helgi Magnússon með 17 stig og Brynjar Björnsson með 15 stig. 

 

Heimamenn byrjuðu leikinn af nokkrum krafti og náðu 8-2 forskoti þegar um tvær mínútur voru liðnar af leiknum. Tahiro Sani fór mikinn undir körfunni og var kominn með 5 fraköst strax eftir 3 mínútur. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum var staðan orðin 14-7 og KR að spila langt undir getu, bæði í vörn og sókn. Hlutirnir voru þó ekki lengi að gerast en KR hafði jafnað leikinn í stöðunni 14-14 þegar rétt rúmlega fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. ÍR svaraði þó um hæl og skoruðu næstu 7 stig leiksins þangað til Benedikt Guðmundsson tók á það ráð að taka leikhlé, 21-14, þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Sveiflurnar héldu þó áfram því KR átti næstu 9 stig leiksins og komust í fyrsta skiptið yfir í leiknum þegar Helgi Magnússon stal boltanum og Avi Fogel brunaði fram völlinn og lagði knöttinn laglega ofaní körfuna, 21-23. Ómar Sævarsson átti þó seinasta orðið í leikhlutanum þegar hann kom öllum á óvart og lagði niður þriggja stiga körfu þegar um 10 sekúndur lifðu af leikhlutanum. Leikhlutinn endaði því með eins stigs forskoti heimamanna, 24-23, eftir hraðann og mjög sveiflukendan leikhluta. 

 

KR-ingar náðu aftur forskotinu í byrjun annars leikhluta og höfðu tveggja stiga forskot þegar um þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 28-30. Hiti var kominn í leikmenn og hraði leiksinns hafði ásjáanlega áhrif á gæði körfuboltans sem spilaður var. Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu KR-ingar enn forskot 30-34 og lítið sem ekkert gekk í sóknarleik ÍR. Það var hins vegar um það bil mínútu síðar sem Hreggviður Magnússon kveikti í sínum mönnum með þriggja stiga körfu sem Nate Brown fylgdi eftir með stolnum bolta og laglegu sniðskoti. Ólafur Sigurðsson veiddi svo Fannar Ólafsson, miðherja KR, í ruðning og stuðningsmenn ÍR trylltust, enda heimamenn komnir yfir aftur, 35-34. Leikurinn spilaðist nokkuð jafn og liðin skiptust á að skora þangað til um 40 sekúndur voru eftir á klukkunni og Nate Brown stelur boltanum og brunar fram völlinn, Brynjar Björnsson brýtur nokkuð fólksulega á honum og fær fyrir vikið dæmda á sig ásetningsvillu. ÍR-ingar klára því leikhlutann með seinustu fjórum stigum leikhlutans og leiddu með 6 stigum í hálfleik, 46-40. 

 

Stigahæstir hjá heimamönnum voru Nate Brown með 13 stig og fjórir leikmenn með 6 stig. Hjá KR var Joshua Helm atvkæðamestur með 12 stig og næstur var Avi Fogel með 8 stig. 

{mosimage}

 

KR-ingar voru hins vegar ekki lengi að koma sér inn í leikinn aftur í byrjun þriðja leikhluta og voru komnir yfir í stöðunni 48-49 þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Hreggviður Magnússon kom heimamönnum þó aftur yfir með þriggja stiga skoti og höfðu þeir því tveggja stiga forskot þegar Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR tók leikhlé, 51-49, um hálfrí mínútu síðar. Þegar leikhlutinn var hálfnaður voru liðin hnífjöfn í stöðunni 55-55 og stefndi allt í hörku spennandi lokafjórðung.  Leikurinn hafði þó róast töluvert niður og því ekki jafn mikið um klaufamistök og hraðaupphlaup eins og í þeim fyrri þó bæði lið keyrðu vissulega upp völlinn. Liðin skiptust á að ná forystunni það sem eftir lifði leikhlutans en KR hafði þó betur þegar flautan gall eftir að þriggja stiga skot Tahirou Sani klikkaði, 66-67. 

 

Heimamenn byrjuðu fjórða leikhluta af krafti en feiknargóð svæðisvörn þeirra skilaði þeim 4 fyrstu stigum leikhlutans úr hraðaupphlaupum þangað til að Benedikt tók leikhlé eftir aðeins eina og hálfa mínútu, 70-67.  KR-ingar gerðu sig brotlega alltof oft  á fyrri hluta leikhutans og gáfu því ÍR-ingum auka stigið trekk í trekk og þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu heimamenn því tveggja stiga forskot, 77-75. Nate Brown sannaði svo sannarlega gildi sitt fyrir ÍR-liðið með stórleik í fjórða leikhluta en hann átti stóran hluta í öllum sóknum heimamanna. Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum höfðu heimamenn því þriggja stiga forskot, 81-78. Ómar Sævarsson kveikti svo allsvakalega í áhorfendum þegar hann varði sniðskot Brynjars Björssonar með glæsibrag sem skilaði auðveldu sniðskoti hjá Sveinbirni Claessen á hinum enda vallarins, 83-78. Brynjar svaraði hins vegar fyrir sig í næstu sókn með þriggja stiga skoti og leikurinn því ennþá galopinn. ÍR-ingar höfðu þó betur á lokamínútunum þegar Hreggviður Magnússon nýtti annað af tveimur vítum og Ólafur Sigurðsson lagði boltann laglega ofaní körfuna með aðeins 15 sekúndur eftir á klukkunni, 86-81. Brynjar Björnsson átti svo seinustu stig Íslandsmeistarana þegar hann setti tvö víti ofaní rétt áður en Ólafur Sigurðsson kláraði leikinn fyrir ÍR með einu stigi af vítalínunni og 5 stiga sigur ÍR því staðreynd, 87 -83.

 

{mosimage}

 

Eins og fyrr var greint frá átti Nate Brown stórleik fyrir ÍR-inga og lék af skynsemi sem kom sér svo sannarlega vel á lokamínútunum. Allt ÍR-liðið var að spila virkilega góð vörn á köflum og sýndu það svo sannarlega í kvöld að með smá stöðuleika eiga þeir alveg heima í toppbaráttu deildarinnar. Helgi Magnússon kom undirrituðum skemmtilega á óvart með því að vera líflegur í sóknarleik KR í kvöld en hann hefur oft látið minna fyrir sér fara á þeim helmingi vallarins hingað til. Fannar Ólafsson átti ekki sinn besta leik í kvöld og veit það sjálfsagt best sjálfur. Það skyggði þó svolítið á skemmtanagildi leiksinns í kvöld hversu áberandi dómarar kvöldsins voru en hvort þeir hafi hallað frekar á annað liðið en hitt skal látið ósagt. Það fór hins vegar ekki framhjá nokkrum í Seljaskóla í kvöld að Benedikt Guðmundsson og þjálfarateymi hans hjá KR voru alls ekki sáttir með dómgæslu kvöldsins. 

Tölfræði leiksins

 

Texti: Gísli Ólafsson

Myndir: Snorri Örn Arnaldsson

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -