Aðeins eitt stig skildi liðin að í kvöld þegar Ægir Þór Steinarsson og félagar í Burgos tryggðu sér sigur í LEB Gold deildinni á Spáni og þar með rétt til að sækja um sæti í ACB deildinni á næstu leiktíð!
Fyrir viðureign Burgos og Palencia í kvöld leiddu Burgos 2-0 og þriðji sigurinn kom með minnsta mun eða 85-86 útisigri og þar með fór Burgos ósigrað í gegnum alla úrslitakeppnina!
Ægir Þór Steinarsson lék í 21 mínútu í liði Burgos í kvöld og skoraði 2 stig, þristarnir vildu ekki niður, 0-4, en Ægir bætti þó við sig 3 stoðsendingum og 2 fráköstum. „Við settum tvö víti til þess að komast einu yfir og stoppuðum í lokin, bilað!“ sagði hress og kátur Ægir Þór Steinarsson í samtali við Karfan.is í kvöld.
Á Spáni er ekki á vísan að róa þó sigur vinnist í LEB Gold deildinni því til þess að komast í ACB deildina þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og fara í gegnum umsóknarferli. Ægir staðfesti við Karfan.is í kvöld að skilaboð stjórnenda Burgos væru þau að klúbburinn myndi fara í þetta ferli og freista þess að koma sér í ACB.
Svona var stemmningin í klefanum:
Vamoooooos!!!! Conseguidooo!!! Gracias a todos por este gran año!!! @CB_Miraflores
— Ægir Þór (@AegirThor29) June 9, 2017