spot_img
HomeFréttirBikarúrslitahátið um næstu helgi í DHL-Höllinni

Bikarúrslitahátið um næstu helgi í DHL-Höllinni

10:02 

{mosimage}

 

 

Mikið verður um dýrðir í DHL-Höllinni um helgina þegar bikarúrslit yngri flokka fara fram. Á vefsíðunni www.kr.is/karfa er bikarúrslitunum gerð góð skil en DHL-Höllin er heimavöllur KR og mun þetta vera annað árið í röð sem KR-ingar standa að bikarúrslitahelginni. Karfan.is mun einnig fylgjast með gangi mála en hér að neðan kemur góð lesning af heimasíðu KR um bikarúrslitaleikina:

 

Annað árið í röð höldum við KR-ingar bikarúrslit yngriflokkanna og höfum við lagt þó nokkuð mikinn metnað í að gera umgjörðina sem glæsilegasta. Við eigum von á þrælskemmtilegum leikjum og skorum á sem flesta að koma og horfa á efnilega leikmenn spreyta sig.  

Bikarúrslit yngriflokkanna er sérstæður viðburður og þarna er verið að keppa í níu flokkum um titil og hjá 9. flokk er verið að leika í fyrsta skipti í þeim aldurshóp ´92 um bikarmeistaratitil. Í fyrra voru úrslitin einnig haldin í DHL-Höllinni og tókst það mjög vel. Unglingaráð körfuknattleiksdeildar KR stendur að hátíðinni annað árið í röð og hefur ráðið lagt töluverða vinnu í undirbúning og umgjörð. Það er ekki spurning að um hápunkt er oft að ræða hjá krökkunum á tímabilinu og því er mikilvægt að umgjörðin sé eftirminnanleg. Við skulum skoða leikina sem fram fara um næstu helgi og sjá leið liðanna í úrslitin. Við munum fjalla um leikina í þeirri röð sem þeir eru leiknir.  

Laugardagurinn 10. mars  

Klukkan 10:00 9. flokkur drengja

Haukar – Hamar/Selfoss

Það er 9. flokkur drengja sem hefur hátíðina og þar eru hið feikisterka lið Fjölnismanna sem mætir Hamar/Selfoss en liðin eru í ólíkum stöðum, Hamar/Selfoss voru að sigra B-riðilin og komast í fjórðu umferðina í A-riðli og þannig hafa liðin ekki mæst í vetur.  Fjölnisstrákarnir hafa ekki tapað leik í vetur og eru gríðarlega sterkir. Fjölnir unnu á leið sinni í bikarúrslitaleikinn Breiðablik 96-32 á heimavelli í undankeppni að 16 liða úrslitum, Keflavík 75-41 í 16 liða úrslitum á heimavelli, Grindavík á heimavelli 94-49 í 8 liða úrslitum og að lokum Njarðvík á útivelli 51-62 í undanúrslitum  Hamar/Selfoss unnu á leið sinni í bikarúrslitinn ÍBV á heimavelli 50-41í 16 liða úrslitum, KFÍ á útivelli 40-56 í 8 liða úrslitum og Hauka 50-49 á heimavelli í undanúrslitum.  

Klukkan 12:00

10. flokkur stúlkna   

Haukar – UMFH Í 10. flokk stúlkna voru sjö lið skráð til leiks, Bikarmeistarar síðasta árs ´91lið Njarðvíkinga fengu Hrunamenn í heimsókn í fyrstu umferð og töpuðu þar 42-44.  Annars sátu Haukastúlkur sem töpuðu úrslitaleiknum í fyrra hjá og fóru beint í undanúrslit.  Liðin sem mætast í úrslitaleiknum eru Haukar og UMFH, þau hafa mæst tvívegis í vetur og hafa Haukastúlkur sigrað í bæði skiptin.  Leið Haukastúlkna er stutt í úrslitin en einsog áður segir þá sátu þær hjá í 8 – liða úrslitum og sigruðu svo Snæfell á heimavelli 58-38 í undanúrslitum.  UMFH slógu bikarmeistara síðasta árs Njarðvík út í 8-liða úrslitum 42-44 á útivelli og í undanúrslitum sigruðu þær Kormák 39-52 í undanúrslitum.  

Klukkan 14:00 11. flokkur drengja  

KR – Fjölnir

Fjölnir og KR mætast í úrslitaleik 11. flokks drengja, liðin hafa leikið saman fjóra leiki í vetur. KR unnið þrjá leiki og Fjölnisstrákarnir einn.  Mikil spenna var í síðasta leik liðanna þar sem KR-ingar sigruðu með einu stigi.  Leið Fjölnismanna í úrslitaleikinn var stutt þar sem að liðið sat hjá í fyrstu umferðinni og Snæfell sem þeir drógust gegn í 8 liða úrslitum gáfu leikinn.  Fjölnismenn sigruðu Hauka á útivelli 39-82 í undanúrslitum.  Leið KR-inga hófst í Keflavík þar sem undankeppni að 8-liða úrslitunum hófst.  KR-ingar sigruðu á útivelli í hörkuleik 78-94 þar sem þeir skoruðu síðustu 22 stig leiksins, í 8-liða úrslitum sigruðu KR-ingar Breiðablik á heimavelli 109-93 og í undanúrslitum sigruðu KR-ingar Þór Þorlákshöfn 102-85 á heimavelli.  

Klukkan 16:00 Stúlknaflokkur  

Keflavík – Haukar

Það verða Keflavík og Haukar sem mætast í úrslitaleiknum, en það hefur ekki verið leikið í stúlknaflokk síðan 2000.  Haukastúlkur eru gríðarlega sterkar í þessum árgangi og hafa ekki tapað leik í vetur, þær hafa leikið mjög vel í vetur og verður spennandi að sjá þær leika.  Keflavíkurstúlkur hafa ekki náð að sigra Keflavík í vetur, en þær eru staðráðnar í að gefa allt í leikinn.  Einungis fjögur lið skráðu sig til leiks í bikarkeppnina í ár og voru leikirnir eftirfarandi: Kormákur – Keflavík 46-56  og  Grindavík – Haukar 62-78  

Klukkan 18:00 Unglingaflokkur Karla  

Njarðvík – Fjölnir

Það verður hart barist í úrslitaleik unglingaflokks karla, Njarðvík og Fjölnir munu þá leika og hafa liðin mæst tvívegis í vetur, Njarðvíkingar hafa sigrað í bæði skiptin og eru taplausir í unglingaflokk í vetur.  Hvorugt liðið var í úrslitaleiknum í fyrra, en þá áttust við KR og FSu.  Leið Njarðvíkinga í úrslitaleikinn: Njarðvíkingar sigruðu FSu bikarmeistara síðasta árs 80-87 á útivelli í 8-liða úrslitum, í undanúrslitum sigruðu Njarðvíkingar Hauka 128-76 á heimavelli. Sá heimaleikur var sá fyrsti í bikarkeppni KKÍ í þrjú ár.  Leið Fjölnismanna í úrslitaleikinn:  Fjölnismenn sigruðu Keflavík í hörkuleik á útivelli 93-96 og í undanúrslitum sigruðu þeir KR-inga 90-108 á útivelli.  Liðið varð íslandsmeistarar í unglingaflokki á síðasta tímabili.  

Sunnudagurinn 11. mars  

Klukkan 10:00  9. flokkur stúlkna  

Haukar – Hamar/Selfoss

Haukar eiga fulltrúa í öllum kvennaleikjum helgarinnar og eru þessar stúlkur að spila í fyrsta skipti um bikarmeistaratitil.  Hamar/Selfoss eru að leika í fyrsta skipti í úrslitum, liðið hefur verið í A-riðli í allann vetur en aldrei náð að sigra Haukastúlkur.  Haukastúlkur eru taplausar í vetur og verður spennandi að sjá hvernig leikurinn mun þróast.  Leið Hauka í úrslitaleikinn: Haukastúlkur sigruðu Skallagrím 81-19 á heimavelli og KR stúlkur 20-0 þar sem KR-ingar náðu ekki í lið.  Leið Hamar/Selfoss í úrslitaleikinn: Hamar/Selfoss sigruðu Njarðvíkinga á heimavelli 43-38 í 8-liða úrslitum, í undanúrslitum sigruðu þær Keflavík 23-21 í spennuleik.  

Klukkan 12:00 10. flokkur drengja  

Fjölnir – Fjölnir B  

Fjölnismenn munu vinna þennan leik, en það er sú sérstæða aðstæða uppi að A og B lið Fjölnis eru í úrslitaleiknum.  A liðið hefur verið mjög sigursælt í þessum árgangi og B liðið er skipað strákum einu ári yngri og er þetta annar bikarúrslitaleikurinn hjá þeim þessa helgi.  Leikurinn verður fróðlegur á að horfa og ekki spurning um að liðið eiga eftir að berjast hart í úrslitaleiknum.  Fjölnir B hófu leiktíðina í C-riðli, en þeir voru hársbreidd frá því að komast uppí A-riðil í síðustu umferð.   Undanúrslit í 10. flokk drengja: Haukar – Fjölnir 48-60 og Keflavík – Fjölnir B 45 – 91  

Klukkan 14:00 Unglingaflokkur kvenna             

Keflavík – Haukar  

Eingöngu þrjú lið skráðu sig til leiks í bikarinn hjá unglingaflokk kvenna.  Ekki er leikið á íslandsmótinu og því hafa liðin ekki leikið gegn hvort öðru í vetur.  Keflavík sátu hjá í undanúrslitum og fóru beint í úrslitaleikinn.  Haukastúlkur sigruðu Grindavík á útivelli 60-104 og má búast við hörkuslag í úrslitunum þar sem þessi lið hafa leikið marga úrslitaleikina í gegnum árin.   

Klukkan 16:00 Drengjaflokkur   

FSu – Keflavík  

Síðasti leikurinn um helgina verður leikur FSu – Keflavík og verður hart barist í honum.  FSu eru ekki með lið í drengjaflokk í ár og því er ekki hægt að taka leiki liðana í vetur.  Keflvíkingar eru á toppnum í drengjaflokk og hafa leikið vel í vetur, þeir hafa unnið 11 leiki og tapað tveimur. Leið Keflvíkinga í úrslitin: Keflavík vann Breiðablik 85-65 á heimavelli í 8-liða úrslitum og KR í undanúrslitum 85-102. Leið FSu í úrslitin: FSu sigruðu Fjölni á heimavelli 106-94 á heimavelli í 8-liða úrslitum og Njarðvík á útivelli 51-60.  

Óskar Ófeigur Jónsson hefur tekið saman gríðarlega ítarlega grein um alla bikarúrslitaleiki yngriflokkanna. Greinin er gríðarlega vel unnin af Óskari og á hann mikið hrós skilið fyrir að uppfæra söguna.  Við hvetjum alla til að koma og sjá efnilega krakka keppa í körfu og fara á www.kki.is og kynna sér innihald greinar Óskars.

Frétt af www.kr.is/karfa

Fréttir
- Auglýsing -