spot_img
HomeFréttirBikarúrslit kvenna 2015: Grindavík bikarmeistari 2015!

Bikarúrslit kvenna 2015: Grindavík bikarmeistari 2015!

Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Grindavíkur og Keflavíkur í Poweradebikarúrslitum í Laugardalshöll. Viðureign liðanna hefst kl. 13:30 og verður í beinni útsendingu hjá RÚV. Karfan.is verður með beina textalýsingu og greinir ítarlega frá leikjum dagsins – fylgist einnig með okkur á Snapchat, Twitter og Facebook.  
 
 
4. leikhluti
 
– Leik lokið. Grindavíkurkonur eru bikarmeistarar kvenna í annað sinn í sögu félagsins! Lokatölur 68-61!
 
– Ráðlegt samt fyrir Grindvíkinga að fagna ekki of snemma því hér datt fimm stiga rispa hjá Keflavík sem minnkaði muninn í 65-59 og 37 sekúndur til leiksloka. 
 
– Þá er þetta orðið ljóst…Grindavík er að verða bikarmeistari í annað sinn í sögu félagsins, mínúta eftir og munurinn er 11 stig, 65-54.
 
– 64-54 og Grindvíkingar gera sín fyrstu stig og það af vítalínunni, Kristina King þar á ferðinni – fyrstu stig Grindvíkinga í fjórða komu eftir næstum níu mínútna leik! 
 
– 62-54 Birna Valgarðsdóttir með sóknarfrákast fyrir Keflavík og skorar, 1.42mín eftir af leiknum og munurinn 8 stig, getur Keflavík þetta?
 
– 62-52 Carmen aftur á ferðinni og minnkar muninn í 10 stig með körfu í teig Grindavíkur…Grindvíkingar enn ekki búnir að skora í fjórða leikluta.
 
– 62-50 Carmen með 2 víti fyrir Keflavík sem leiða fjórða leikhluta 8-0 – 3.31mín eftir af leiknum. 
 
 
– Þetta er einfaldlega of mikið…Keflvíkingar eru að tapa boltanum of oft og of klaufalega..19 tapaðir boltar hjá þeim til þessa í leiknum.
 
– 62-48 og 5.08 mín til leiksloka og Grindvíkingar hafa enn ekki skorað í fjórða leikhluta. Vörn Keflavíkur er þétt en þær þurfa að komast nærri…
 
– Keflavík var 10 stigum undir í hálfleik, 40-30:
2 sinnum hafa lið sem hafa verið 10 stigum eða meira undir í hálfleik sigrað úrslitaleikinn. (Keflavík 1997 (-11), ÍS 2003 (-13) – báðir leikir unnust í framlengingu)
 
– 62-48 Carmen brýst í gegn og skorar og Keflavík með 6-0 byrjun hér í fjórða…geta þær gert leik úr þessu að nýju?
 
– 62-46 Sandra Lind skorar úr stökkskoti fyrir Keflvíkinga sem byrja fjórða leikhluta 4-0. 
 
– Tvær mínútur liðnar af fjórða leikhluta og loksins fyrstu stigin dottin í hús en það gerði hin reynslumikla Birna Valgarðsdóttir með snúningi á blokkinni og minnkaði muninn í 62-44.
 
– Fjórði leikhluti er hafinn!
 
 
3. leikhluti  62-42
 
– Þriðja leikhluta er lokið og staðan er 62-42 en Grindavík vann þriðja leikhluta 22-12. Nú er að duga eða drepast fyrir Keflvíkinga!
 
– 60-40 og munurinn orðinn 20 stig eftir þrist frá Jeanne Louis – Grindvíkingar eru hér að leggja sterkan grunn að bikartitlinum. Keflvíkingar eru því miður jafn flatir í stúkunni og á parketinu og akkúrat núna vantar stopp í vörninni og trú á verkefnið – ef einhverjir eru líklegir til að vinna sig úr svona holu eru það sigursælustu bikarfarar kvennaboltans úr Keflavík.
 
– 55-40 og laglegt samspil hjá Guðlaugu og Kristina King. Keflavík tekur leikhlé þegar 2.19mín eru eftir af þriðja leikhluta. Enn vöntun á bæði smá grimmd í bland við heppni hjá Keflvíkingum, ísinn er að þynnast en Grindavík tekst alltaf að vera skrefinu á undan.
 
– 3 mínútur eftir af þriðja og Ingibjörg Jakobsdóttir er leidd af velli og kennir sér eymsla í læri. Vont fyrir Grindvíkinga ef hún getur ekki tekið meiri þátt. Hún fær nú aðhlynningu meina sinna.
 
– 49-40 Carmen brýst í gegn og skorar fyrir Keflavík og minnkar muninn í níu stig, eru Keflavíkingar að finna taktinn? Carmen með 13 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar til þessa.
 
– 49-36 og 5 mínútur eftir af þriðja leikhluta, Ingun Embla er nú komin með fjórar villur í liði Keflavíkur.
 
– 47-36 og hér kastast í kekki milli Bryndísar Guðmundsdóttur og Petrúnellu Skúladóttur, það er farið að hitna í kolunum og Petrúnella er að leika lystilega vel hérna fyrir Grindvíkinga komin með 12 stig og 8 fráköst. 
 
– 45-34 Petrúnella skorar fyrir Grindvíkinga eftir gegnumbrot og Sigurður Ingimundarson tekur leikhlé fyrir Keflavík. Ingunn Embla er komin með 3 villur í liði Keflavíkur en Keflvíkingar eru enn of flatir, bráðvantar þeirra megin að finna smá neista, smá byr í seglin og þá fara hlutirnir að ganga upp. Að óbreyttu eru Grindvíkingar mun líklegri þessa stundina.
 
– Pálína María opnar þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu fyrir Grindavík, sú er í stuði í dag! 
 

*Pálína hefur verið lífleg með eindæmum, einkum og sér í lagi á varnarendanum.
 
Hálfleikstölur 
 
 
 
2. leikhluti 
 
– Fyrri hálfleik er lokið – staðan er 40-30 fyrir Grindavík
 
– 37-23 María Ben með stökkskot í teignum eftir óeigingjarnt upplegg frá Pálinu og Keflavík tekur leikhlé þegar 2.26mín eru til hálfleiks. Pálína María er að leggja ákveðinn grunn sem mögulegur Lykilmaður-leiksins en hún hefur eins og við vissum verið dýrvitlaus í vörninni og komin einnig með 7 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar. 
 
– 33-23 og munurinn orðinn 10 stig í fyrsta sinn í leiknum. 
 
– 29-23 og 4.20mín eftir af öðrum leikhluta. Með sterkum varnarleik er Grindavík við stýrið.
 
– 27-19 Keflvíkingar komnir í 2-3 svæðisvörn en Grindvíkingar finna strax lausn á því. Keflvíkingar eru að fara illa með boltann um þessar mundir og Grindvíkingar nýta hvert tækifæri til þess að refsa – það mætti halda að Sverrir Þór Sverrisson væri að þjálfa þær!
 
– 25-19 fyrir Grindavík og tvær og hálf mínúta liðin af öðrum leikhluta þegar Keflvíkingar taka leikhlé.
 
– 22-19 Grindavíkurþristarnir halda áfram að detta, nú var það Jeanne Lois sem skellti niður einum slíkum og Grindavík 4/7 í þristum til þessa í leiknum.
 
– 19-17 Birna Valgarðsdóttir gerir fyrstu stig Keflavíkur í öðrum leikhluta. 
 
– Annar leikhluti er hafinn.
 
 
1. leikhluti 19-15
 
– 19-15 og fyrsta leikhluta lokið. Kristina King komin með 7 stig og 4 fráköst í liði Grindavíkur en hjá Keflavík er Bryndís Guðmundsdóttir með 7 stig og 3 fráköst.
 
– 17-15 King með þrist fyrir Grindavík en liðið hefur sett 3 af fyrstu 5 þristum sínum í leiknum.
 
– 14-11 fyrir Grindavík og 3 mínútur eftir af fyrsta leikhluta. Hraður og fjörugur leikur í gangi. Pálína María er komin með tvær villur í liði Grindavíkur og er komin á tréverkið, vissara fyrir Grindvíkinga að halda henni fjarri vandræðum enda þurfa konurnar úr Röstinni á Pálínu að halda allt þar til yfir lýkur.
 
– 10-9 Pálína með þrist fyrir Grindavík og 4.55mín eftir af fyrsta leikhluta. 
 
– 5-7 og Keflvíkingar svara þessari 5-0 byrjun Grindavíkur með 7-0 skvettu.
 
– 5-3 Bryndís Guðmundsdóttir gerir fyrstu stig Keflavíkur, karfa góð og villa að auki og vítið að sjálfsögðu niður.

– 5-0 fjör hjá Grindvíkingum á upphafsaugnablikunum, Petrúnella Skúladóttir var að skella niður þrist! 

 
– 2-0 María Ben Erlingsdóttir opnar leikinn fyrir Grindavík. 
 
– Þá er þetta brostið á, bikarúrslit kvenna eru hafin.
Byrjunarlið Grindavíkur: Pálína María Gunnlaugsdóttir, Petrúnella Skúladóttir, Ingibjörg Jakobsdóttir, María Ben Erlingsdóttir og Kristina King.
Byrjunarlið Keflavíkur: Ingunn Embla Kristínardóttir, Sara Rún Hinriksdóttir, Carmen Tyson-Thomas, Sandra Lind Þrastardóttir og Bryndís Guðmundsdóttir.
 
Verið er að kynna liðin til leiks og það er röddin sjálf, Páll Sævar Guðjónsson, sem sér um kynninguna. „Þetta er okkar staður, þetta er okkar stund!“
 
Dómarar kvennaleiksins: Björgvin Rúnarsson og Sigmundur Már Herbertsson
 
Mikið mun mæða á Petrúnellu Skúladóttur í liði Grindavíkur í dag.
 
 
Flestir bikarmeistaratitlar kvenna 1975-2014:
13 Keflavík (1988, 89, 90, 93, 94, 95, 96, 97, 98, 2000, 04, 2011, 2013)
10 KR (1976, 77, 82, 83, 86, 87, 99, 2001, 02, 09)
7 ÍS (1978, 80, 81, 85, 91, 2003, 06)
6 Haukar (1984, 92, 2005, 07, 10, 14)
1 Þór Akureyri (1975)
1 ÍR (1979)
1 Grindavík (2008)
1 Njarðvík (2012)
 
Dómarar kvennaleiksins í dag eru þeir Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson.
 
Fréttir
- Auglýsing -