11:30
{mosimage}
(Sveinbjörn Claessen þekkir það að vinna í Höllinni)
Á þarsíðustu leiktíð fögnuðu ÍR-ingar bikarmeistaratitlinum og er hann Sveinibirni Claessen eflaust í fersku minni. Við fengum Sveinbjörn til þess að líta á undanúrslitaleikina í Subwaybikarnum um helgina og þetta hafði hann að segja:
KR – GRINDAVÍK
KR-ingar hafa spilað frábærlega í vetur enda valinn maður í hverri stöðu og Grindavík eru alls ekki síðri að mínu mati. Ég spái því að Grindvíkingar muni mæta til leiks eins og svangar mannætur og muni kasta sér á allt sem laust er og berja hresslega frá sér með Nick Bradford í aðalhlutverki. Ég sé fyrir mér að allt verði á suðupunkti og jafnvel meira í fyrri hálfleik þegar Bradford ögrar stuðningsmönnum KR í Miðjunni ansi hressilega eftir að hafa leikið KR-inga grátt í upphafi leiks. Baldur Ólafsson mun þá þurfa að kalla á félaga sína í sérsveitinni til að róa Miðjumenn niður enda þeir undir áhrifum mótmæla á Austurvelli sem staðið hafa yfir síðustu dagana. Hvort piparúða verði beitt eða ekki þori ég þó ekki að spá um. Öll þessi læti verða til þess að KR-ingar hressa sig við og komast aftur inn í leikinn með góðri vörn. Jakob og Jón Arnór munu girða sig í brók og leiða KR til sigurs. Þá spái ég því að Darri Hilmarsson verði hetja KR-inga með því að skora ævintýralega sigurkörfu úr jumper af lyklinum um leið og bjallan glymur.
STJARNAN – NJARÐVÍK
Ég treysti því og trúi að þessi leikur fari í sögubækurnar og verði mönnum minnugur um ókomin ár. Stjörnumenn koma inn í leikinn sem litla liðið enda í fyrsta skipti sem þeir leika til undanúrslita í bikarkeppni svo ég best viti. Ég spái því að fyrirliði og leiðtogi liðsins, Fannar Helgason, muni fara fremstur meðal jafningja og mætir eldbleikur af reiði og mun svo að öllum líkindum tryllast eftir rosalega rimmu við Friðrik Stefánsson í upphafi leiks. Eftir 5 mínútna leik endurtekur Fannar það sem hann gerði í leik ÍR og Tindastóls árið 2004 þegar hann gleymdi að hann væri að spila körfubolta og stundaði hnefaleika í örskamma stund þess í stað. Dómari leiksins mun reka hann umsvifalaust út úr húsi og Fannar kveður leikinn með 4 stig (2/11 nýting) og 10 fráköst (þar af 9 sóknarfráköst). Njarðvíkingar breytast úr ljónum í litla kettlinga þegar þeir sjá Fannar froðufellandi dreginn út úr húsi. Við fyrirliðabandinu tekur ÍR-ingurinn og hringaberinn Ólafur Jónas Sigurðsson sem að mínu mati hefur ekki verið að spila miðað við getu í vetur en hann mun án nokkurs vafa stíga upp enda kannast hann vel við bikarleikina eftir veru sína í Breiðholtinu. Ólafur tekur út allt sem hann á inni og kemur til með að eiga sinn besta leik. Ég spái því að leikurinn verði í járnum allan tímann og munurinn á liðunum verður aldrei meiri en 3 stig. Sannarlega frábær körfuskemmtun! Þetta mun verða grófasti leikur tímabilsins og alls munu 6 leikmenn úr hvoru liði verða reknir út af með 5 villur. Eftir 6 framlengingar verður staðan 166-169 Njarðvík í vil og þeir með boltann. Þeir reyna að láta tímann renna út en Ólafur Jónas stelur boltanum þegar 2 sekúndur eru eftir. Ólafur kemur til með að taka sky-hook frá miðju og Magnús Gunnarsson stjakar við honum í skotinu. Skotið fer í spjaldið og ofan í og Ólafur fær eitt víti til að klára leikinn. Hann setur það niður og lokastaða 170-169 fyrir Stjörnuna.
Ég skal borða stuttbuxurnar mínar ef þessi spá er ekki nákvæm lýsing á því sem koma skal!
KEFLAVÍK – VALUR
Vegna fáfræði minnar á kvennaboltanum skýt ég á að Keflavík vinni þennan leik og byggi spánna á því að Keflavík hefur unnið Val tvívegis í vetur í deildarkeppninni.
SKALLAGRÍMUR – KR
Ég tel fullvíst að KR-konur fari með auðveldan sigur af hólmi og mæti Keflavík í úrslitum.



