13:00
{mosimage}
Næstur til að spá um bikarleikina er Karl Jónsson. Karl hefur farið um víðan völl en er kominn aftur á heimaslóðir þar sem hann stýrir unglingastarfi hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls. Meðal þeirra félaga sem hann hefur leikið með eru Tindastóll, Höttur, Snæfell, KFÍ og ÍR.
Karl hafði þetta að segja:
Keflavík – KR
„ Ég á von á hörku leik hjá konunum, Keflvíkingar hafa mikla sigurhefð á bakinu eftir marga titla síðustu árin, kunna að vinna stóru leikina og það á eftir að telja í leiknum gegn KR. KR-liðið vann Keflavík í síðasta deildarleik liðanna og það getur gefið þeim aukið sjálfstraust og er gott vegarnesti í úrslitaleikinn. Annars skiptir staðan í deildinni litlu máli í bikarkeppninni. Ég á von á jöfnum leik, en hef trú á að þessi sigurhefð Keflavíkurstúlkna vegi þungt í lokin.
KR – Stjarnan
Hvað karlaleikinn varðar væri mjög auðvelt að segja að KR rúllaði yfir Stjörnuna, en eins og ég sagði áðan skiptir staðan í deildinni litlu máli í þessum leikjum. Núverandi KR-leikmannahóp þyrstir hins vegar eflaust í að taka titilinn því það er algjörlega óvíst hvort þessi hópur verður mikið meira saman en í vetur. Stjarnan hefur hins vegar alla burði til að koma á óvart og með tilkomu Teits í þjálfarastólinn virðist sjálfstraust leikmanna hafa vaxið. Teitur þekkir vel hvað þarf til að ná árangri í svona leikjum og lykillinn fyrir þá er að missa KR-liðið ekki of langt frá sér. Gangi það eftir gætu þeir reynt all verulega á þolrif þeirra röndóttu undir lokin og þá getur allt gerst. Ég hallast að KR-sigri en vona að það verði eftir jafnan hörkuleik.”
Mynd: www.skagafjordur.com



