spot_img
HomeFréttirBikarspá: Ívar Ásgrímsson

Bikarspá: Ívar Ásgrímsson

21:00
{mosimage}

(Ívar Ásgrímsson)

Haukamaðurinn og fyrrum þjálfari kvennaliðs ÍS, Ívar Ásgrímsson, stígur næstur á stokk og leyfir lesendum Karfan.is að fá nasaþef af hans tilfinningu fyrir undanúrslitum Subwaybikarsins sem hefjast á morgun, laugardaginn 24. janúar, með stórleik KR og Grindavíkur.

Laugardagurinn 24. jan.
KR – UMFG
 
Þetta er þvílíkur stórleikur og kannski sá leikur sem flestir körfuknattleiksunnendur hefðu viljað sjá í úrslitaleik í fullri höllinni í stað troðfullrar DHL-hallar.  Þetta eru þau tvö lið sem hafa verið best það sem af er vetri og fyrri leikir þessara liða hafa verið jafnir. Einnig er þetta fyrsti leikur Bradfords með Grindavík og því er mikil spenna í gangi. Ég hef séð tvo leiki með KR og hef verið mjög hrifinn af þeim, þeir hafa kannski verið að spila jafna leiki framan af leik en náð svo að spýta í í lokin og klára leikina örugglega og manni finnst einhvernveginn að þeir geti mun betur og eigi töluvert inni. Varnarleikur KR-inga er mjög góður að mínu mati og þeir skipta mjög mikið í vörninni, sem hentar þeim mjög vel því þeir eru flestir svipaðir að stærð.  Jón Arnór hefur stjórnað vörninni mjög vel og hefur verið mjög traustur og það sama má segja um Jakob sem að mínu mati er besti leikstjórnandinn í deildinni. KR-ingar græða mikið á stærð sinna bakvarða (Jón Arnóri og Jakobi) og því eiga andstæðingar þeirra í miklum vandræðum með sínar sóknir á móti þeim. KR-ingar gætu þó verið í vandræðum ef Grindavík fer mikið inní teiginn, en þar er veikleiki KR-inga. Fannar á það til að lenda í villuvandræðum og það gæti kostað þá töluvert. Útlendingur KR-inga er mjög góður leikmaður og sýndi það í síðasta leik er Jón Arnór var hvíldur að hann getur tekið yfir og leitt sóknina.

Grindvíkingar hafa verið að spila mjög vel og eru með gríðarlegan sterkan mannskap og fara þar fremstir Brenton, Þorleifur og svo Páll Axel sem getur klárað leiki ef sá gállinn er á honum.  Brenton er frábær leikmaður og karakter og hefur sýnt það í gegnum árin að þau lið sem hann er í munu alltaf berjast um titla. Nú bætist Nick Bradford í hópinn og eins og hann spilaði með Keflavík þá ætti hann að styrkja lið Grindavíkur mikið, var mikill liðsspilari og gat einnig tekið af skarið þegar á þurfti.

Ég held að þetta verði spennandi leikur allan tímann en held að heimavöllurinn muni ráða úrslitum og að KR-ingar fari með sigur og vinni þennan leik með 5 stigum, 98-93 í mjög skemmtilegum og hörðum leik og vona ég að leikurinn fái að vera harður og að dómarar láti leikinn ganga og verði ekki að dæma of mikið af villum. Held að þetta verði erfiður leikur fyrir dómara og því er ég hræddur um að þeir vilji ekki að leikurinn fari í mikla hörku en vona að við fáum okkar bestu dómara á þennan leik (Kidda og Simma) og þeir ákveði að vera ekki að dæma of mikið.

Sunnudagurinn 25. jan.
Stjarnan – Njarðvík 

Þetta ætti einnig að verða spennandi leikur, þetta er að mínu mati eini séns þessara liða til að spila um titil og því leggja þau mikið undir. Njarðvík vann síðasta leik þessara liða og satt að segja komu þau úrslit mér nokkuð á óvart. Stjarnan er með gott lið en vantar kannski aðeins uppá breiddina, en það á að vísu við um mjög mörg lið í deildinni í dag, eins og t.d. andstæðinga þeirra, Njarðvík. Stjarnan er með gott byrjunarlið og hefur verið að stíga aðeins upp eftir þjálfaraskiptin. Þó hafa þeir verið í vandræðum með að halda forskoti og hafa oft gefið eftir er líður á seinni hálfleik og það gæti reynst þeim þungt í bikarleik. Veit ekki hvort ástæðan sé líkamlegt eða andlegt form en þetta er hlutur sem Teitur verður að vinna í og laga. Stjarnan er með þrjá lykilmenn sem mun mæða mikið á, þ.e. Shouse, Jovan og Fannar. Stjarnan verður svo að fá aðra leikmenn, eins og Kjartan, Ólaf og Guðjón, til að stíga upp og spila vel til að vinna þennan leik.

Njarðvík hefur verið svolítið eins og skopparakringa í vetur og spilað upp og niður. Unnið Keflavík og tapað svo gríðarlega stórt á móti sumum liðum. Þeir eru með þrjá reynslumikla menn, Magga, Frikka og Loga. Aðrir leikmenn eru ungir og reynslulitlir og það gæti kostað Njarðvík sigurinn í þessum leik. Valur hefur verið að gefa þessum ungu strákum séns og töluverðan spilatíma og hefur notað 18 leikmenn það sem af er vetri og segir það margt um þann vandræðagang sem þar er í gangi. Valur verður í nokkrum vandræðum í þessum leik og þarf að stóla mikið á reynslu og getu þessara þriggja landsliðsmanna. Maggi og Logi hafa ekki náð að smella nógu vel saman og þetta er kannski leikurinn sem þeir ná báðir að eiga stórleik. Frikki ætti að geta unnið teiginn í þessum leik en verður að spila vel til að vinna Fannar og verður að passa sig að lenda ekki í villuvandræðum.

Ef litið er á liðin og getu þeirra myndi ég spá Stjörnunni sigri en held að Valur nái að berja bardagaham í sína menn og að Njarðvík leggi Stjörnuna í spennandi leik, 81–77.  Maggi mun setja nokkra stóra þrista og Stjarna nær ekki að stöðva Loga og Frikka og þar liggur munurinn.

Kvennaleikir
Keflavík – Valur

Síðasti leikur þessara liða var nokkuð jafn og vonandi að þessur leikur verði það líka. Ég þekki Valsliðið mjög vel því Valur er byggt upp af ÍS liðinu sem ég þjálfaði í mörg ár. Valsliðið verður að stóla á Signý og það að hún eigi stjörnuleik til að þær eigi séns í þennan leik. Einnig verða Lovísa og Þórunn að spila mjög vel í sókninni, þær spila alltaf góða vörn en verða að taka af skarið í sókninni og hjálpa Signý. Vandræðin hjá Val er leikstjórnun og því verða þær að vera tilbúnar undir pressu frá Keflavík og þær verða líka að stjórna hraða leiksins til að eiga möguleika á sigri. Ef þær hleypa leiknum upp í hraðan leik eiga þær ekki séns og Keflavík vinnur öruggan sigur. Valsmönnum vantar líka hættu fyrir utan 3ja stiga línu til að ná að teygja á vörn Keflavíkur. Keflavík er með gott lið og hefur verið að spila vel í vetur. Birna hefur verið mjög góð og það sama má segja um Svövu en þær báðar eru að koma mjög sterkar til baka eftir barnsburð sem eru frábær tíðindi, ekki bara fyrir Keflavík heldur líka íslenskan kvennabolta. Að auki eru Keflvíkingar með sterkasta varnarbakvörð landsins, Pálínu og gæti hún farið ílla með Valsstúlkur í þessum leik. Held að Keflavík byrji með miklum látum og pressi frá fyrstu sekúndu og reyni að hleypa leiknum upp. Ef þær ná því vinna þær öruggan sigur.

Bæði þessi lið eru að spila án útlendings og eru því jöfn þar. Mín spá er að Keflavík vinni þennan leik með 15 stigum, 88 – 73.  Vona þó að mínir fyrrum lærlingar taki þennan leik og fari í höllina en held að það sé töluverð bjartsýni.

Skallagrímur – KR

Þetta verður auðveldur sigur hjá KR stúlkum og því verður stór dagur hjá KR-ingum í höllinni er úrslitaleikirnir fara fram. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þennan leik, munurinn á milli deilda er gríðarlegur og hafa KR stúlkur verið að spila nokkuð vel eftir áramót og hafa styrkst mikið með tilkomu Margrétar Köru. KR-ingar eru með sterkan mannskap en þara fara fremstar Hildur og Margrét Kara. Hef ekki séð neitt til Skallagrímsstúlkna og veit því ekki neitt um það lið en vona bara að þær njóti þess að spila á móti sterku liði og verði reynslunni ríkari. Öruggur sigur KR 92–34.

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -